Sjúkraprófum bætt við í janúar

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nemendur við Háskóla Íslands sem eru í sóttkví eða einangrun vegna Covid-19 fá tækifæri til að taka sjúkrapróf og vegna veirunnar hefur verið bætt við slíkum prófum í janúar í nokkrum námskeiðum.

Þetta kemur fram í svari Róberts Haraldssonar, sviðsstjóra kennslumála hjá Háskóla Íslands, við fyrirspurn mbl.is.

Fyrirkomulagið fyrir þá nemendur sem þurfa að fara í sóttkví eða einangrun er þannig að tilkynning þess efnis þarf að berst til nemendaskrár skólans og einnig geta þeir óskað eftir skráningu í sjúkrapróf. Meirihluti prófa er á netinu og nemendur í sóttkví geta þreytt þau próf heima hjá sér, að því er kemur fram í svarinu.

Róbert H. Haraldsson.
Róbert H. Haraldsson. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Aðspurður segir hann ekki marga nemendur hafa haft samband og lýst yfir áhyggjum af fyrirhuguðum prófum eftir að hafa lent í sóttkví eða einangrun. „Sumir nemendur eru greinilega áhyggjufullir og við skiljum það og leitumst við að koma til móts við þá, sérstaklega ef þeir hafa undirliggjandi sjúkdóma,“ segir Róbert, sem bætir við að nemar þurfi að tilkynna veikindi eigi síðar en þremur dögum eftir prófdag.

Háskólinn hefur sett saman „Spurt og svarað um lokapróf“ þar sem svör er að hafa við ýmsum atriðum er varða lokapróf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert