Biðla til fólks að fara ekki á milli landssvæða

Biðlað er til fólks um að ferðast ekki á milli …
Biðlað er til fólks um að ferðast ekki á milli landshluta á meðan ástandið er tvísýnt. mbl.is/Ásdís

Aðgerðastjórn Austurlands biðlar til fólks um að ferðast ekki á milli landshluta nema brýna nauðsyn beri til. Ekkert virkt Covid-19 smit er nú á Austurlandi. 

Aðgerðastjórnin bendir einnig á að óbreyttar sóttvarnareglur verða í gildi til 9. desember en ástandi sé áfram tvísýnt enda enn að greinast nokkur fjöldi smita á hverjum degi, nokkur utan sóttkvíar. Þetta þykir ekki efni til breytinga að svo stöddu.

Þá brýnir aðgerðastjórnin einnig fyrirtæki til að sýna samfélagslega ábyrgð og senda ekki starfsfólk á milli landssvæða nema aðrar lausnir standi ekki til boða. 

„Í öllum tilvikum þegar svo háttar til þurfa ferðalangar að huga að sóttvörnum í einu og öllu, halda fjarlægð, nota grímu þar sem það er áskilið, stunda handþvott sem aldrei fyrr og muna að spritta,“ segir í tilkynningunni.

Bent er á að sóttvarnayfirvöld hafa nýlega gefið út leiðbeiningar sem beinast að jólum og áramótum. Þær má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert