Ekki forsvaranlegt að aflétta takmörkunum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir aðspurð að samhugur hafi verið innan ríkisstjórnarinnar um þá ákvörðun að framlengja núgildandi takmarkanir fram til 9. desember. 

„Við sjáum öll smitstuðulinn og hvernig staðan er,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi nú um hádegið.

„Og það er auðvitað þannig að það langar alla til að vera á þeim stað að geta aflétt, en það er bara ekki forsvaranlegt þegar við erum að sjá þeim fjölga sem smitast og sömuleiðis hlutfall þeirra sem eru utan sóttkvíar,“ bætti hún við.

Gefa sér skemmri tíma

Spurð hvers vegna framlengt sé til einnar viku en ekki tveggja eða þriggja segist hún vonast til að smitbylgjan muni ganga hratt niður.

„Við erum að gefa okkur skemmri tíma til að ná fyllri mynd á hversu útbreitt þetta er og hvort það megi tengja þetta við einhver klasasmit sem eru fljótari að ganga niður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert