Ekki skylda að taka upp önnur mál

Yfirrétturinn komst að því að ríkið hefði neitað Guðmundi um …
Yfirrétturinn komst að því að ríkið hefði neitað Guðmundi um rétt sinn til meðferðar hjá löglega skipuðum dómstóli. mbl.is/Hanna

Það fellur á herðar íslenska ríkisins að draga nauðsynlegar ályktanir af nýföllnum dómi yfirréttar Mannréttindadómstóls Evrópu og að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að álíka brot eigi sér stað í framtíðinni.

Hins vegar á ekki að túlka dóm réttarins á þann veg að ríkinu sé skylt samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu að taka upp að nýju öll svipuð dómsmál.

Þetta er á meðal þess sem segir í fréttatilkynningu dómstólsins, sem komst fyrr í dag einróma að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn sjöttu grein sáttmálans við meðferð máls Guðmundar Andra Ástráðssonar, sem ákærður var fyrir umferðarlagabrot fyrir Landsrétti.

Ekki verið skipaður samkvæmt lögum

Í greininni er kveðið á um að maður, sem borinn er sök um refsivert brot, skuli eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli, og að skipan hans sé ákveðin með lögum.

Lögmaður Guðmundar, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hélt því fram að Landsréttur hefði í raun ekki verið skipaður samkvæmt lögum, þar sem hnökrar hefðu verið á tilnefningu Arn­fríðar Ein­ars­dótt­ur sem dómara við réttinn.

Við úrlausn málsins vildi yfirrétturinn ganga úr skugga um að frávik í ferlinu hefðu verið það veigamikil að brotið hefði verið gegn þessu ákvæði sáttmálans.

Sérhvert frávik stefndi ekki réttinum í hættu

Tók hann þá afstöðu að rétt manns til málsmeðferðar hjá dómi sem skipaður hefði verið lögum samkvæmt bæri ekki að túlka á þann veg að sérhvert frávik í ferli við skipun dómara myndi stefna þeim rétti í hættu.

Þessa ákvörðun tók rétturinn í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi, og vegna þeirra áhrifa sem kunna að fylgja þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmála Evrópu.

Vikið er að því að á undanförnum áratugum hafi lög á Íslandi, sem snúa að tilnefningum dómara, gengist undir mikilvægar breytingar með það að markmiði að takmarka vald ráðherra í ferlinu og þar með styrkja sjálfstæði dómsvaldsins.

Þessar takmarkanir hefðu verið hertar enn frekar þegar að því kom að tilnefna dómara við hinn nýja Landsrétt. Þinginu hefði þá verið fengið það verkefni að samþykkja hvern og einn dómara sem ráðherra tilnefndi, til að renna traustari stoðum undir lögmæti réttarins.

Virti að vettugi grundvallarreglu

„Hins vegar, eins og komist var að í Hæstarétti Íslands, var brotið á þessu regluverki, sérstaklega af dómsmálaráðherranum, þegar fjórir hinna nýju dómara voru tilnefndir,“ segir í tilkynningu Mannréttindadómstólsins. 

„Þó að ráðherranum hafi verið heimilt samkvæmt lögum að víkja frá tillögu nefndarinnar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þá virti hún að vettugi grundvallarreglu í ferlinu sem skuldbatt hana til að reisa ákvörðun sína á nægilegri athugun og mati.“

Þessi regla hefði verið mikilvæg vörn gegn því að ráðherrann tæki ákvörðun út frá pólitískum eða annars konar ástæðum, sem myndu grafa undan sjálfstæði og lögmæti Landsréttar.

Jafngilti því að koma aftur á fyrra valdi

Brot á reglunni hefði í raun jafngilt því að koma aftur á því ákvörðunarvaldi sem embætti ráðherra hafði áður við tilnefningar dómara og þannig haft að engu þær mikilvægu framfarir og varúðarráðstafanir sem falist hefðu í nýju lögunum.

Allar aðrar ráðstafanir reyndust einnig árangurslausar að mati réttarins, sem bendir á tilnefningarferlið innan þingsins og áfrýjun málsins til Hæstaréttar.

Komst rétturinn að lokum að því að ríkið hefði neitað Guðmundi um rétt sinn til meðferðar hjá löglega skipuðum dómstóli.

mbl.is