Enginn skilningur á íþróttum innan VG

Benedikt Guðmundsson landsliðsþjálfari.
Benedikt Guðmundsson landsliðsþjálfari. Ljósmynd/FIBA

„Núna er ég mest pirraður út í Vinstri græna því maður hefur heyrt að hinir stjórnarflokkarnir séu meira til í að leyfa íþróttir. Það er eins og þau haldi að fyrst einn hópur hefur það skítt þurfi allir aðrir líka að hafa það skítt,“ segir Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfuknattleik. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra birti nýja reglugerð í dag. Í henni kom fram að sóttvarnareglur verði óbreyttar í viku viðbót. Afreksíþróttastarf liggur því áfram niðri. Segir Benedikt að algjört skilningarleysi ríki hér á landi. „Fyrsta sem manni dettur í hug er skilningsleysi. Maður hélt að þeir sem stýrðu þessu væru í sambandi við kollega sína í öðrum löndum eða hlustuðu á sérfræðinga og vísindamenn,“ segir Benedikt.

Mikill pirringur innan hreyfingarinnar

Hann bendir á að sýnt hafi verið fram á smithætta í íþróttum sé lítil sem engin. „Það er ekki eins og við séum að fara fram á að spila leiki á morgun. Við viljum taka þátt í sóttvörnunum, en bara það að fá að æfa undir stífum reglum myndi breyta miklu. Mér finnst oft eins og þau sé ekki með heildarmyndina að leiðarljósi. Með öllum þessum reglum er verið að búa til ný vandamál.“

Sjálfur segist hann finna fyrir miklum pirringi innan íþróttahreyfingarinnar. „Fólki finnst vanta rödd sem talar máli íþróttafólks. Ég finn og heyri alveg gríðarlegan pirring innan íþróttahreyfingarinnar. Maður hefur lítið heyrt opinberlega frá ráðandi öflum innan íþróttahreyfingarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert