Tónlistarmiðstöð undirbúin

Jakob Frímann Magnússon mun leiða starfshóp sem á að skila …
Jakob Frímann Magnússon mun leiða starfshóp sem á að skila tillögum að starfsemi Tónlistarmiðstöðvarinnar þann 1. mars. Eggert Jóhannesson

Menntamálaráðherra skipaði í dag starfshóp sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun Tónlistarmiðstöðvar. Það er tónlistar- og Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon sem fer með formennsku í starfshópnum sem á að skila tillögum hópsins til ráðherra 1. mars næstkomandi.

Jakob Frímann segir í samtali við mbl.is að þetta séu mikil gleðitíðindi fyrir íslenskt tónlistarlíf en í dag hefur Degi íslenskrar tónlistar einmitt verið fagnað með ýmsum hætti. 

„Mennta- og menningarmálaráðherra hefur gert sér grein fyrir því að hér sé hægt að gera betur og, líkt og Kvikmyndasjóði var breytt í Kvikmyndamiðstöð og hún síðan efld og þroskuð, blasir við að hægt er að gera hið sama í þágu tónlistarlífsins og iðnaðarins. Hér þarf að skjóta frekari stoðum undir þá starfsemi sem fyrir er í landinu og bregðast við nýjum áskorunum sem fylgja veitustarfsemi af ýmsu tagi,“ segir Jakob og leggur áherslu á að mikilvægt sé að hjálpa íslensku tónlistarfólki að koma verkum sínum á framfæri á þeim nýju leiðum sem hafi opnast í neyslu á tónlist.

Í því samhengi nefnir hann tölvuleikjaiðnaðinn, tónlistarveitur, streymistónleika á borð við nýafstaðna Airwaves-hátíð og ekki síst streymisveitur á borð við Netflix. Framleitt efni í kvikmyndagerð hafi margfaldast og þar þurfi ávallt tónlist til að styðja við myndefnið „Þeir fiska sem vita hvert á að róa,“ segir Jakob sem sér fyrir sér að hlutverk Tónlistarmiðstöðvarinnar kynni m.a. að felast í að stuðla að bættu utanumhaldi,  varðveislu menningarverðmæta, fræðslu, þróun, nýsköpun, fjölgun tekjustofna og eflingu Útóns svo nokkuð sé nefnt.

Auður er einn vinsælasti tónlistarmaður landsins um þessar mundir.
Auður er einn vinsælasti tónlistarmaður landsins um þessar mundir. Eggert Jóhannesson

Í tilkynningu frá Menntamálaráðuneytinu sem send var á fjölmiðla segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra að Tónlistarmiðstöðin eigi að skapa íslenskri tónlist betri umgjörð og það sé fyrir löngu orðið tímabært.  

Engin orð fanga mikilvægi íslenskrar tónlistar, bæði fyrir sjálfsmynd og menningu þjóðarinnar. Í henni er einhver ólýsanlegur strengur, sem höfðar ekki bara til okkar sjálfra heldur tónlistarunnenda um allan heim. Íslenskt tónlistarfólk hefur náð ótrúlegum árangri á fjölmörgum sviðum tónlistar og fyrir vikið er tónlist orðin ein af okkar mikilvægustu útflutningsgreinum. Hún vekur athygli á landi og þjóð, laðar ferðafólk til landsins og skapar þannig veraldleg verðmæti auk þeirra menningarlegu. Það er löngu tímabært að skapa íslenskri tónlist betri umgjörð og ég trúi því að stofnun Tónlistarmiðstöðvar sé mikilvægt skref í þeirri vegferð.“

Í starfshópnum eru auk Jakobs: 

  • Jakob Frímann Magnússon formaður, skipaður án tilnefningar.
  • Valgerður Guðrún Halldórsdóttir, tilnefnd af Tónverkamiðstöð.
  • Bryndís Jónatansdóttir, tilnefnd af ÚTÓN.
  • Bragi Valdimar Skúlason, tilnefndur af Samtóni.
  • Gunnar Hrafnsson, tilnefndur af Bandalagi íslenskra listamanna.
  • Eiður Arnarsson, tilnefndur af Félagi hljómplötuframleiðenda.
  • Arnfríður Sólrún Valdemarsdóttir, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Hópurinn á að skila af sér vinnu þann 1. mars næstkomandi.

mbl.is