Allt að 45 m/s

Gular viðvaranir eru í gildi um allt land. Mynd úr …
Gular viðvaranir eru í gildi um allt land. Mynd úr safni. mbl.is/Jónas Erlendsson

Gular viðvaranir eru í gildi um allt land og verður þeim ekki aflétt fyrr en á miðnætti annað kvöld. Varað er við ófærð og vonskuveðri en spáð er allt að 45 metrum á sekúndu. 

Í dag er útlit fyrir vaxandi norðanátt, víða hvassviðri eða storm eftir hádegi og jafnvel enn hvassara í vindstrengjum sunnan Vatnajökuls undir kvöld.

„Búist er við snjókomu á norðurhelmingi landsins, sums staðar talsverðri ofankomu á Norðurlandi. Sunnan heiða verður lítil úrkoma, en þó sums staðar lítils háttar él á þeim slóðum. Kólnar í veðri og frystir á landinu í dag.

Á morgun er ekkert nema norðanstormur í kortunum og enn hvassara í vindstrengjum sunnan undir fjöllum og þá einkum á suðaustanverðu landinu. Það verður snjókoma eða él norðan- og austanlands. Áfram líkur á dálitlum éljum sunnan til á landinu. Herðir á frostinu þegar ískalt heimskautaloft streymir yfir okkur úr norðri.

Í dag, á morgun og fram á föstudag er sem sagt útlit fyrir fyrsta alvörunorðanáhlaup vetrarins. Á Norður- og Austurlandi verður vindstyrkur og snjókomumagn væntanlega nægilegt til að tala megi um stórhríð, að minnsta kosti á einhverjum köflum í tíma.

Ekki er gert ráð fyrir að vind lægi að gagni fyrr en síðdegis á föstudag, þá fyrst vestast á landinu. Þá styttir einnig upp fyrir norðan og austan.

Eins og oft vill verða þegar lægir og léttir til eftir kalda norðanátt hækka frosttölur á hitamælum og horfur eru á hægum vindi um helgina með hörkufrosti,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Kort/Veðurstofa Íslands

Á Suðurlandi tekur gul viðvörun gildi klukkan 18 í dag og gildir til miðnættis annað kvöld, fimmtudagskvöld. „Norðan 18-28 m/s, hvassast undir Eyjafjöllum og í Mýrdal með vindhviðum yfir 40 m/s. Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni til að forðast foktjón.“

Faxaflói, gul viðvörun tekur gildi klukkan 10 í dag og gildir til miðnættis annað kvöld, fimmtudagskvöld. „Norðanstormur, 18-25 m/s, með vindhviðum að 40 m/s. Í fyrstu er versta veðrið bundið við sunnanvert Sæfellsnes, en síðar má búast við varasömum vindstrengjum við fjöll víðar á svæðinu, t.d. á Kjalarnesi. Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni til að forðast foktjón.“
Við Breiðafjörð hefur gul viðvörun verið í gildi frá klukkan 5 í morgun og gildir til miðnættis annað kvöld, fimmtudagskvöld. „Norðanhvassviðri eða -stormur 15-25 m/s með snjókomu eða éljum og skafrenningi. Lélegt skyggni og slæm akstursskilyrði. Færð getur spillst.“
Á Vestfjörðum tók gul viðvörun gildi í nótt og gildir til miðnættis annað kvöld, fimmtudagskvöld. „Norðanhvassviðri eða -stormur 15-25 m/s með snjókomu eða éljum og skafrenningi. Lélegt skyggni og slæm akstursskilyrði. Færð getur spillst.“
Strandir og Norðurland vestra – gul viðvörun gildir frá klukkan 9 í dag og gildir til miðnættis annað kvöld, fimmtudagskvöld. „Norðanhvassviðri 13-20 m/s með snjókomu og skafrenningi. Lélegt skyggni og slæm akstursskilyrði. Færð getur spillst.“
Á Norðurlandi eystra tekur gul viðvörun gildi á hádegi og gildir til miðnættis annað kvöld, fimmtudagskvöld. „Norðanhvassviðri 13-20 m/s með snjókomu og skafrenningi. Lélegt skyggni og slæm akstursskilyrði. Færð getur spillst.“
Austurland að Glettingi – gul viðvörun gildir frá klukkan 14 í dag og gildir til klukkan 22 er næsta viðvörun tekur gildi með enn veðra veðri gildir sú viðvörun til miðnættis annað kvöld. „Norðanstormur 18-23 m/s með snjókomu og skafrenningi. Mjög lélegt skyggni og vond akstursskilyrði. Færð spillist líklega.“
Austfirðir – gul viðvörun frá klukkan 18 í dag og gildir til miðnættis annað kvöld, fimmtudagskvöld. „Norðanstormur 18-25 m/s og hviður yfir 35 m/s. Snjókoma og skafrenningur, einkum norðan til. Lélegt skyggni og slæm akstursskilyrði, færð getur spillst.“
Suðausturland – gul viðvörun tekur gildi klukkan 16 í dag og gildir til miðnættis annað kvöld, fimmtudagskvöld. „Norðan og norðvestan 20-28 m/s undir austanverðum Vatnajökli og í Öræfum. Vindhviður jafnvel yfir 45 m/s með mögulegu sand- og grjótfoki. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og tryggja lausamuni.“
Miðhálendið – gul viðvörun gildir frá klukkan 15 í dag og gildir til miðnættis annað kvöld, fimmtudagskvöld. „Norðvestan 15-23 m/s og síðar norðan 20-28. Snjókoma eða él og lélegt skyggni, einkum norðan til. Mjög slæmt ferðaveður.“
Veðurspáin fyrir næstu daga
Vaxandi norðanátt í dag, víða 15-23 m/s eftir hádegi og hvassara í vindstrengjum sunnan Vatnajökuls undir kvöld. Snjókoma á norðurhelmingi landsins, sums staðar talsverð ofankoma á Norðurlandi, en úrkomulítið sunnan heiða. Frost 0 til 6 stig.


Norðan 18-25 m/s á morgun, en 23-28 í vindstrengjum á suðaustanverðu landinu. Snjókoma eða él norðan- og austanlands. Úrkomulaust að mestu sunnan heiða, en þó sums staðar lítils háttar él á þeim slóðum. Frost 2 til 8 stig.

Á fimmtudag:

Norðan 18-25 m/s, en 23-28 í vindstrengjum á suðaustanverðu landinu. Snjókoma eða él norðan- og austanlands. Sums staðar dálítil él sunnan heiða. Frost 2 til 8 stig.

Á föstudag:
Norðan 13-20, en hvassara suðaustan til. Él á Norður- og Austurlandi, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Lægir og styttir upp síðdegis, fyrst vestast á landinu. Herðir á frosti.

Á laugardag og sunnudag:
Hæg suðvestlæg eða breytileg átt. Víða bjartviðri, en stöku él syðst á landinu og einnig á Vestfjörðum. Frost 5 til 18 stig.

Á mánudag og þriðjudag:
Líkur hægum vindi áfram. Bjart í veðri, en él á stöku stað við ströndina. Áfram kalt.

mbl.is