Fékk kyrrsetningu ekki aflétt í Euromarket-máli

Landsréttur staðfesti úrskurðinn fyrir helgi.
Landsréttur staðfesti úrskurðinn fyrir helgi. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna kröfu sakbornings í Euromarket-málinu, en maðurinn vildi að kyrrsetningu á eignum hans yrði aflétt.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að maðurinn hafi verið verslunarstjóri, um tíma skráður framkvæmdastjóri, og að daglegur rekstur hafi verið í hans höndum. Einnig hafi hann verið skráður framkvæmdastjóri annars félags, en grunur leikur á að það félag hafi verið notað til að þvætta fjármuni við stofnun Euromarket.

Rann­sókn lög­reglu á Euro­mar­ket-mál­inu er ein sú um­fangs­mesta sem ráðist hef­ur verið í á skipu­lagðri glæp­a­starfs­semi. Alls höfðu 28 ein­stak­ling­ar og fjór­ir lögaðilar rétt­ar­stöðu grunaðra hér­lend­is í mál­inu, en það snýr að fíkni­efna­fram­leiðslu, fíkni­efna­smygli, fjár­svik­um og pen­ingaþvætti.

Kyrrsetti 50% eignarhlut í fasteign

Ráðist var í aðgerðir vegna rann­sókn­ar­inn­ar í des­em­ber árið 2017, en ásamt ís­lensku lög­regl­unni fara pólsk og hol­lensk lög­reglu­yf­ir­völd með rann­sókn máls­ins með milli­göngu Europol.

Maðurinn var handtekinn í þeim aðgerðum.

Sama dag var tekin fyrir hjá sýslumanni kyrrsetningarbeiðni þar sem þess var krafist að kyrrsettar yrðu eignir mannsins fyrir kröfu upp á hundrað milljónir króna.

Þrátt fyrir mótmæli mannsins var fallist á kröfu lögreglunnar og var 50% eignarhlutur mannsins í fasteign í Reykjavík kyrrsettur. Sama dag var kyrrsettur 50% eignarhlutur eiginkonu hans í sömu íbúð.

Úrskurður héraðsdóms féll í nóvember og staðfesti Landsréttur hann fyrir helgi.

Ráða má af úrskurðinum að málið hafi ákveðna sérstöðu og að þegar hafi verið gefnar út ákærur í Póllandi vegna þess. Meðal annars með vísan til þess, auk yfirlýsingar ákæruvalds um að ákvörðun um saksókn muni liggja fyrir eftir nokkra mánuði, féllst héraðsdómur ekki á að óhæfilegur dráttur hefði orðið á meðferð málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert