Hættan eykst þegar líður á veðrið

Sem stendur er engin hætta á snjóflóðum í byggð.
Sem stendur er engin hætta á snjóflóðum í byggð. mb.is/Eggert Jóhannesson

Engin viðvörun er í gildi vegna snjóflóðahættu í byggð en Vegagerðin hefur gefið út viðvörun vegna snjóflóðahættu á tveimur vegum, í Súðavíkurhlíð og á Ólafsfjarðarvegi. Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á ofanflóðavakt hjá Veðurstofu Íslands, segir að hættan á snjóflóðum aukist þegar líði á veðrið. 

Veðurstofan veit ekki til þess að snjóflóð hafi fallið í morgun og segir Óliver að vegna slæms skyggnis séu í raun litlar líkur á því að Veðurstofan muni frétta af slíku nema þá ef snjóflóð falla á vegi. 

„En þetta veður er bara tiltölulega nýbyrjað,“ segir Óliver og ítrekar að Vegagerðin hafi sett óvissustig á vegi en ekkert óvissustig sé í gildi vegna snjóflóðahættu í byggð. 

Snjórinn stöðugur vegna hláku

Spurður um hættu á því að snjóflóð falli segir Óliver:

„Hættan eykst þegar líður á veðrið en það er engin hætta á snjóflóðum í byggð eins og er.“

Hlýtt var í veðri á Vestfjörðum í gær. Óliver segir að það gæti vissulega hafa haft jákvæð áhrif og minnkað áhættuna á snjóflóðum. 

„Snjórinn sem var fyrir er líklega orðinn nokkuð stöðugur þannig að það þarf kannski aðeins lengri aðdraganda, það var alveg mikil hláka þarna á undan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert