Páll og Óli Björn styðja ekki hálendisþjóðgarð

Páll Magnússon og Óli Björn Kárason þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon og Óli Björn Kárason þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/samsett

Páll Magnússon og Óli Björn Kárason þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa báðir gefið út að þeir geti ekki stutt frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð óbreytt. 

Skýrt er kveðið á um stofnun Miðhálendisþjóðgarðs í stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Þar segir: 

„Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila.“

Í færslu á facebook lýsi Páll Magnússon því yfir í dag að hann sæi sér ekki fært að styðja málið eins og það lítur út í dag.

Þar segir Páll: „Ég get ekki stutt að ríkisvaldið þjösni vilja sínum fram með þessum hætti  þvert gegn sjónarmiðum heimamanna.“ 

„Löngunin til að stýra öllu frá 101 Reykjavík er sterk

Óli Björn Kárason sendi grein í Morgunblaðið í morgun sem ber yfirskriftina Gegn valdboði og miðstýringu. Þar segir Óli:

„Ég mun því styðja hugmyndina um miðhálendisþjóðgarð sé hún byggð á skynsamlegri nýtingu auðlinda hálendisins, frjálsri för almennings, virðingu fyrir eignarréttinum, frumkvöðlarétti og sjálfsstjórn sveitarfélaga í skipulagsmálum.

Löngunin til að stýra öllu frá 101-Reykjavík er sterk. [...] Á komandi vikum verð ég, líkt og aðrir þingmenn, að taka afstöðu til margvíslegra mála. Ég get ekki stuðst við annað en þann leiðarvísi sem sannfæring og sjálfstæðisstefnan gefa. Oft þarf ég að sveigja eitthvað af leið en ákveðin grunnprinsipp verða ekki brotin. Ekki þegar kemur að þvingunaraðgerðum gagnvart sveitarfélögum, ekki við stofnun miðhálendisþjóðgarðs ...“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert