Stofnað verði landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Hafinn er undirbúningur að gerð þingsályktunartillögu heilbrigðisráðherra um stofnun landsráðs sem verður ráðgefandi vettvangur um mönnun heilbrigðisþjónustunnar og menntun heilbrigðisstétta. Markmiðið er að tryggja til framtíðar nægan fjölda hæfs starfsfólks og að menntun þess fullnægi þörfum heilbrigðisþjónustunnar á hverjum tíma.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fjallaði um þetta í ávarpi á nýafstöðnu heilbrigðisþingi þar sem mönnun, menntun og nýsköpun í heilbrigðisþjónustu var meginumfjöllunarefnið. Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins. 

Um 600 manns voru skráðir til þátttöku á þinginu, fylgdust með beinu streymi og sendu inn fyrirspurnir og ábendingar. Fyr­ir­les­ar­ar og þátt­tak­end­ur í umræðum komu úr ýms­um átt­um; meðal ann­ars frá Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­inni, heil­brigðis­stofn­un­um og ráðuneyt­um, land­læknisembætt­inu, há­skól­um lands­ins og úr ný­sköp­un­ar­geir­an­um, að því er segir á vef ráðuneytisins. 

Upptaka frá þinginu er aðgengileg á vefnum www.heilbrigdisthing.is, hér má einnig lesa ávarp ráðherra frá þinginu og hér að neðan fylgja enn fremur nokkrar svipmyndir frá heilbrigðisþingi 2020.

„Mönnun heilbrigðisþjónustunnar er alþjóðleg áskorun og samkeppni um mannauðinn fer vaxandi. Því verðum við að fjárfesta markvisst í menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks og vinna skipulega að þessum málum. Til þess að ná árangri þarf góða yfirsýn og samræmdar aðgerðir þar sem samráð og samvinna háskóla, heilbrigðisstofnana og tengdra stofnana er lykilatriði,“ er haft eftir Svandísi í tilkynningu. 

Nánar hér. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert