Tilslakanir á landsbyggðinni koma til greina

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það komi til álita að beita minna takmarkandi aðgerðum vegna Covid-19 utan höfuðborgarsvæðisins. Það er vegna þess að lang stærstur hluti þeirra smita sem hafa greinst undanfarið, eða 93%, hafa greinst á höfuðborgarsvæðinu. 

Þetta kemur fram í viðbót við minnisblað Þórólfs vegna tillagna að opinberum sóttvarnaaðgerðum innanlands vegna Covid-19 frá og með 2. desember 2020. Eins og greint var frá í gær framlengdi heilbrigðisráðherra fyrri sóttvarnaráðstafanir í gær til 9. desember næstkomandi. 

Stórar hópsýkingar hafi komið út úr slakari aðgerðum

„Í ljósi þess að mjög fá smit eru nú að greinast utan höfuðborgarsvæðisins þá kæmi til álita að mínu mati að beita minna takmarkandi aðgerðir á þeim svæðum. Hins vegar er rétt að benda á að fyrir nokkrum vikum var einmitt minna íþyngjandi aðgerðum beitt utan höfuðborgarsvæðisins en fljótlega komu upp stórar hópsýkingar í kjölfarið einkum á Norðurlandi,“ skrifar Þórólfur. 

Í viðbótinni við minnisblaðið kemur fram að rakning á 91 tilfelli sem greindust á tímabilinu 20. til og með 27. nóvember sýni fram á að 93% þeirra greindust á höfuðborgarsvæðinu, 3% á Norðurlandi, 2% á Vestfjörðum og 1% á Suðurnesjum.

„Öll smitin samanstanda af þremur stofnum veirunnar sem borið hafa uppi faraldurinn sem hér hefur geisað undanfarnar vikur og sum smitin má rekja beint til höfuðborgarsvæðisins. Í yfir 90% greindra tilfella á tímabilinu þá má jafnframt rekja smitin til nokkurra hópamyndana innan fjölskyldna, í fyrirtækjum og milli ótengdra aðila,“ skrifar Þórólfur. 

Faraldurinn í línulegum vexti

Þá segir hann að daglegur fjöldi þeirra sem hafi verið að greinast undanfarið hafi verið nokkuð stöðugur.

„Þetta þýðir að faraldurinn virðist nú vera í línulegum vexti og er það stutt af útreikningum vísindamanna við Háskóla Íslands sem hafa reiknað að smitstuðull faraldursins (R stuðull) er nú um 1-1,5,“ skrifar Þórólfur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert