„Alltaf tími fyrir jafnrétti kynjanna“

Katrín er hún flutti ávarpið.
Katrín er hún flutti ávarpið. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Berjast þarf fyrir jafnrétti kynjanna, sérstaklega á meðan á kórónuveirufaraldrinum stendur, enda segir sagan að faraldrar auki ójafnrétti.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í árvarpi sínu á aukaþingi Sameinuðu þjóðanna um Covid-19.

Hún benti á að kynbundið ofbeldi hafi aukist og bakslag hafi orðið í jafnréttismálum. Einnig sagði hún heimilisofbeldi hafa aukist um allan heim, ásamt fátækt og að mannréttindi stúlkna og kvenna séu í hættu. Konur yfirgefi vinnustaði sína til að sinna heimilinu. Berjast þurfi gegn þessari þróun.„Það er alltaf tími fyrir jafnrétti kynjanna,“ sagði hún.

Katrín nefndi einnig að Íslendingar hafi séð gildi öflugrar heilbrigðisþjónustu í faraldrinum þar sem aðgangur allra hafi verið tryggður.

Sömuleiðis vakti hún athygli á loftslagsvandanum og sagði að hann hverfi ekki þrátt fyrir baráttuna við Covid-19. Núna þurfi að sýna fordæmi í átt að hreinni framtíð. Slíkt sé ekki bara skylda gagnvart Parísarsáttmálanum heldur einnig  unga fólkinu í dag og framtíðarkynslóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert