Bjartsýn að leyfi fáist fyrir áramót

Forstjóri Lyfjastofnunar er jákvæð að bóluefni Pfizer við kórónuveirunni verði …
Forstjóri Lyfjastofnunar er jákvæð að bóluefni Pfizer við kórónuveirunni verði veitt leyfi þann 29. desember næstkomandi. mbl.is/Hjörtur

Forstjóri Lyfjastofnunar, Rúna Hauksdóttir Hvannberg, segir að stofnunin sé bjartsýn á að leyfi fyrir bóluefni lyfjarisans Pfizer gegn kórónuveirunni fáist fyrir áramót eða þann 29. desember.

Af hennar orðum að dæma eru ekki sambærilegar aðstæður á Íslandi og t.a.m. í Bretlandi, en þar í landi var bóluefni Pfizer veitt bráðaleyfi í gær.

„Bretar hafa bara veitt tímabundna heimild fyrir lyf sem ekki hefur enn fengið markaðsleyfi. Þetta er semsagt bara undanþága fyrir sölu og dreifingu lyfs sem ekki hefur fengið markaðsleyfi,“ segir Rúna í samtali við mbl.is

Hún segir að Bretlandsmarkaður sé stór að þar hafi hugsunin verið að gefa leyfi fyrir innanlandsmarkað.

„Við erum hluti af evrópsku lyfjastofnuninni- og eftirlitinu. Við fylgjum þeim þess vegna. Það er verið að horfa til þess að samþykkja bóluefni Pfizer þann 29. desember.“

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. mbl.is

Geymsla verður ekki vandamál

Fram hefur komið að bóluefni Pfizer verði að geyma við 80 gráðu frost svo gæði þeirra séu sem mest. Rúna segir þetta ekki vera hindrun.

„Það fylgja þessu góðar leiðbeiningar sem segja til um að bóluefnið megi geyma við minna frost í skemmri tíma. Þetta verður því ekki nein fyrirstaða.“

Hún segir þó að öll tæknileg atriði varðandi dreifingu bóluefnis liggi í höndum sóttvarnalæknis og annarra aðila innan heilbrigðiskerfisins og vísar til orða þeirra í fjölmiðlum þegar hún var spurð um undirbúning á dreifingu bóluefnis.

„Við erum bjartsýn á að leyfin fyrir Pfizer fáist fyrir lok árs. Nákvæmlega hvaða tímasetningar verða gefnar út í kjölfarið er á forræði annarra en okkar. Við beinum sjónum okkar aðallega að leyfisveitingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert