Bóluefnin gætu borist í janúar

Svandís svavarsdóttir heilbrigðisráðherra flutti góðar fréttir á þingfundi í dag.
Svandís svavarsdóttir heilbrigðisráðherra flutti góðar fréttir á þingfundi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú berast jákvæðar fréttir frá bóluefnaframleiðendum, vonir vakna um að við sjáum ljósið við endann á göngunum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir í byrjun ræðu sinnar á þingfundi í dag, þar sem til umfjöllunar voru sóttvarnaráðstafanir með sérstakri áherslu á bólusetningar gegn Covid-19.

Reikna má með því að fyrstu markaðsleyfin við bóluefni gegn veirunni verði veitt Íslandi fyrir áramót og afhending bóluefna geti þá hafist innan nokkurra vikna en samningur hefur náðst milli Íslands og bóluefnaframleiðandans AstraZeneca - felur hann í sér kaup á tæplega 230 þúsund skömmtum sem duga fyrir um 115 þúsund einstaklinga.

„Samningur við bóluefnaframleiðandann Pfizer er einnig langt kominn en hann myndi tryggja Íslandi kauprétt á 170 þúsund skömmtum sem dygðu fyrir 85 þúsund einstaklinga. „Með fleiri samningum sem eru í gangi tryggjum við Íslendingum nægt magn bóluefna,“ sagði Svandís.

Heilbrigðisstarfsmenn fá bóluefni fyrst 

„Það verður lögð áhersla á það að bólusetja fyrst þau sem eru í framlínunni í baráttu við sjúkdóminn svo sem heilbrigðisstarfsfólk og annað starfsfólk á bráðamóttöku.

Einnig heilbrigðisstarfsmenn sem framkvæma sýnatöku vegna sjúkdómsins og starfsfólk hjúkrunar- og dvalarheimila, bólusetning einstaklinga sem dvelja á hjúkrunarheimilum og bólusetning þeirra sem dvelja á öldrunardeidum sjúkrahúsa verður einnig í miklum forgangi,“ sagði Svandís.  Sóttvarnalæknir muni bera ábyrgð á skipulagningu bólusetningarinnar.

Hjarðónæmi náist vart fyrr en í vor

Kom fram í máli heilbrigðisráðherra að til þess að vinna bug á veirunni þurfi hjarðónæmi að nást - þ.e.a.s. 60 til 70% einstaklinga þyrftu að hafa ónæmi við veirunni og því sé óraunhæft að ætla að ná hjarðónæmi öðruvísi en með bólusetningu. Bólusetning færi fram með tveggja til þriggja vikna millibili, þar sem sá tími þarf að líða til þess að unnt sé að tryggja virkni bóluefnisins.

„Hjarðónæmi næst vart fyrr en í lok fyrsta ársfjórðungs fyrsta árs og mögulega síðar,“ sagði Svandís og bætti við að óljóst væri hvort veiran geti stökkbreyst. Þó væri ólíklegt að hún gerði það með sama hætti og inflúensuveiran sem bólusetningar fara fram gegn árlega.

„Hvernig sem allt fer er ráðlegt að við frörum að öllu með gát fram á næsta sumar. En virðulegi forseti, það er ástæða til bjartsýni í samfélaginu, sem staðið hefur sig ótrúlega vel í glímunni við Covid-19,“ sagði ráðherra að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert