Bólusetning gæti gerst mjög hratt

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hlutirnir gætu gerst mjög hratt um leið og nýtt bóluefni við kórónuveirunni hefur verið samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu.

Stofnunin skilar áliti sínu á bóluefnum 29. desember og ef niðurstöðurnar verða jákvæðar getur dreifing hafist mjög fljótlega upp úr því, sagði Þórólfur í Kastljósinu í kvöld. „Ef svo er getur þetta gerst mjög hratt.“

„Ef niðurstaðan er ekki jákvæð þurfum við að hugsa málið upp á nýtt,“ bætti hann við.

Bóluefni fyrir um 85 þúsund manns

Hann sagðist ekki vilja koma með getgátur um hvenær bóluefnið verður tilbúið fyrir Íslendinga og lagði áherslu á að taka eitt skref í einu. Væntingar eru þó til þess að fyrstu sendingar komi í janúar. Um yrði að ræða bóluefni frá Pfizer fyrir um 85 þúsund manns en ekki er öruggt hvort skammturinn komi allur í einu. Hann sagðist samt búast við því, enda bóluefnið viðkvæmt og það mun ekki borga sig að flytja það í litlu magni hingað til lands.

Þórólfur kvaðst jafnframt hræddur um að fólk missi sjónar á því hvað þarf að gera núna varðandi sóttvarnir ef það fer að hugsa of mikið um nýtt bóluefni.

Bólusetningin virkar þannig að eftir að fólk er fyrst bólusett þarf það að bíða í þrjár vikur eftir næsta skammti. Full vernd verður svo komin um viku eftir seinni skammtinn. Samkvæmt því sem heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur sagt getur hún bólusett þúsund upp í tugi þúsunda manna á dag, bætti Þórólfur við.

Pfizer-bóluefnið.
Pfizer-bóluefnið. AFP

Margar fyrirspurnir út af forgangshópum

Spurður hvers vegna allt fólk sem er yfir áttrætt sé ekki í forgangi varðandi bólusetningu, sökum dánartíðni, sagði Þórólfur mikla umræðu hafa skapast um forgangshópa. Hann sagðist strax hafa fengið mikið af fyrirspurnum og erindum um að „þessi og þessi sé í forgangi“.

Hann sagði það rétt að dánartíðin er langhæst hjá elsta aldurshópnum en einnig sé hún há hjá fólki með undirliggjandi sjúkdóma. „Þetta fólk verður með fyrstu hópunum.“ Hann nefndi einnig að mikilvægt væri að fólk í umönnunarstörfum fá bólusetningu fljótt því slæmt væri að missa það úr starfi.

Miklu meiri afleiðingar af Covid-19

Þegar nefnt var við Þórólf að ekki virðist allir vera tilbúnir að láta bólusetja sig sagði hann ósköp eðlilegt að fólk velti þessum hlutum fyrir sér. Hann sagði lítið hægt að ræða um kosti og ókosti bólusetningar fyrr en niðurstaða verður komin frá framleiðandanum, t.d. varðandi aukaverkanir.

Hann sagði ljóst að afleiðingarnar af Covid-19 séu þær að margir deyja og fara á spítala og að margir séu lengi að jafna sig þrátt fyrir að hafa ekki veikst alvarlega. „Það mun koma í ljós að afleiðingarnar af Covid séu miklu meiri en fólk gerir sér grein fyrir.“

Sóttvarnalæknir sagðist vonast til að búið verði af aflétta takmörkunum í vor ef allt gengur vel varðandi bóluefnið. Til þess að hjarðónæmi náist þarf að bólusetja að minnsta kosti 60 til 70% af þjóðinni. Þá breiðist veiran ekki út þótt einstaklingar sýkist.

mbl.is

Bloggað um fréttina