Dópaður bílstjóri og Mannréttindadómstóllinn

Mannréttindadómstóll Evrópu.
Mannréttindadómstóll Evrópu.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, telur að Mannréttindadómstóll Evrópu sé á góðri leið með að grafa undan sjálfum sér og að hætt verði að taka hann alvarlega. Að meint mannréttindabrot á Íslandi séu tekin upp hjá dómnum en ekkert sé aðhafst í málefnum ríkja þar sem mannréttindabrot séu af grófara tagi.

„Sömu aðilar, á meðal alþingismanna og lögmanna, sem vörðu för forseta Mannréttindadómstóls Evrópu til Tyrklands fyrr á árinu að taka við heiðursnafnbótum frá helstu mannréttindaböðlum álfunnar, fagna nú þeirri niðurstöðu þessa sama dómstóls um að brotin hafi verið mannréttindi á einstaklingi sem ók próflaus undir áhrifum eiturlyfja og var dæmdur sekur á öllum dómstigum, vegna þess að einn dómarinn í Landsrétti hefði verið skipaður í embætti með ólögmætum hætti," segir Ögmundur á vefsvæði sínu. 

Telur ráðningaferlið lögum samkvæmt

Hann segist þó gera sér grein fyrir því að að mergurinn málsins hafi snúist um það að MDE hafi viljað sýna fram á að skipað hefði verið í Landsrétt með ólögmætum hætti. Það sé hins vegar álitamál. 

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson

Segir hann að ráðningaferlið hafi verið lögum samkvæmt. Ekki sé óeðlilegt að ráðherra taki við málinu frá matsnefnd sem leggi til þá dómara sem hún telji hæfasta. 

„ Hann (ráðherra) endurraðaði fjórum dómurum af fimmtán frá því sem matsnefndin hafði gert. Ekki ætla ég að hafa skoðun á því hvort það hafi verið sanngjarnt, en þennan lagalega rétt hafði ráðherrann, en þótti ekki rökstyðja breytingartillögur sínar nægilega vel á grundvelli málefnalegrar skoðunar. Það bar ráðherra að gera," segir Ögmundur. 

Enginn þingmaður óskaði eftir atkvæðagreiðslu 

„Að lokum er það Alþingi sem horfir yfir fyrri þættina tvo og greiðir atkvæði um hverjir skuli valdir. Þetta var gert. Greidd voru atkvæði um allan hópinn í einu, einfaldlega vegna þess að enginn þingmaður óskaði eftir því að greidd yrðu atkvæði um hvern og einn. Það var Alþingis að ákveða það,“ segir Ögmundur. 

Landsréttur
Landsréttur

Segir hann að með því sé girt fyrir það að matsnefndin sé einráð og það komi í veg fyrir klíkuskap. Hann gagnrýnir þó Sigríði Andersen fyrir það að hafa ekki tekið sáttahönd stjórnarandstöðunnar um að tefja afgreiðslu málsins til frekari yfirlegu. 

„Alþingi þyrfti að venja sig af því að hugsa sem stjórn eða stjórnarandstaða í málum af þessu tagi – helst í öllum málum. Þannig urðu stjórnarskipti á þessum tíma og tilheyrandi sinnaskipti hjá einhverjum þingmönnum. En sinnaskipti eru líka leyfileg og lögleg,“ segir Ögmundur. 

Augljós mannréttindabrot sitja á hakanum

Hann segir að það veki spurningar að Mannréttindadómstóllinn hafi tekiði málið upp á annað borð. „Að taka þetta mál yfirleitt fyrir vekur spurningar í ljósi þeirra grófu mannréttindabrota í ýmsum ríkjum Evrópu sem ekki fá afgreiðslu,“ segir Ögmundur. 

„Dómstóllinn hefur nú legið yfir því mánuðum saman á himinháum skattlausum launum sínum að komast að þeirri niðurstöðu að lýðræðið hafi brugðist á Íslandi við skipan dómara í máli próflausa dópaða bílstjórans í Kópavogi,“ segir Ögmundur. 

Fjöldi augljósra mannréttindabrota eru látin sitja á hakanum. Hins vegar er legið yfir því að koma höggi á íslensk stjórnvöld og Alþingi vegna máls sem er svo smávægilegt í hinu stærra samhengi að undrum sætir. Hvað veldur?“ spur Ögmundur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert