Ekkert fullyrt um afskipti Sigríðar Andersen

Mannréttindadómstóll Evrópu.
Mannréttindadómstóll Evrópu. Ljós­mynd/​ECHR

Halldóra Þorsteinsdóttir, lektor og héraðsdómari, sagði á málþingi Háskólans í Reykjavík um Landsréttarmálið að í dómi Mannréttindadómstóls væri ekkert fullyrt um pólitísk afskipti Sigríður Andersen, fyrrum dómsmálaráðherra, af skipan í starf dómara í Landsrétt. 

Hins vegar segir Halldóra að í dómnum sé bent á það að einn umsækjenda hafi verið með meiri dómarareynslu en þeir fjórir aðrir sem fengu skipan við dóminn. Nefnir MDE að slíkt veki spurningar um það hvaða hvatar hafi legið að baki. Það sé til þess fallið að velta því upp hvort að um pólitísk afskipti hafi verið að ræða. Óheppilegt sé fyrir trúverðugleika dómstólsins að sú spurning sé uppi. Ráðherra hafi virt að vettugi grundvallarreglur um skipan dómara og því hafi ekki verið hægt að útiloka pólitísk afskipti. Af þeim sökum hafi dómstóllinn ekki verið skipaður að lögum.  

Halldóra Þorsteinsdóttir
Halldóra Þorsteinsdóttir

Hins vegar kemur fram að dómstóllinn líti svo á að aðrir dómarar við dómstólinn hafi verið löglega skipaðir.

Ný túlkun á ákvæði sáttmálans

Eins er að sögn Halldóru vikið að máli Hæstaréttar í dómnum. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að dómarar séu ekki vanhæfir. Þeir séu skipaðir eftir stjórnarskrá og hafi ekki áhrif á réttláta málsmeðferð þeirra sem hafi farið fyrir Landsrétt.

Að sögn Halldóru gerir MDE athugasemd við það að Hæstiréttur sitji við þetta mat og segir að Hæstiréttur hefði mátt ganga lengra í þá átt að túlka það hvort Landsréttur hafi verið settur eftir lögum. Hún segir að dómstóllinn sé þar að túlka ákvæði sáttmálans þannig að jafnvel lögfræðingar með mikla reynslu af sáttmálanum hafi ekki séð þetta fyrir.

Þá telur Halldóra að dómur Mannréttindadómstólsins sé í samræmi við það sem dómstóllinn hefur lagt áherslu á á undanförnum árum. Þá að það sé mikilvægt að ráðherra komi ekki að skipan dómara með þeim hætti að hætt sé við því að trúverðugleiki dómstólsins gagnvart borgurum sé í undir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert