Nýr stofn skotið upp kollinum á landamærunum

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Kórónuveirufaraldurinn er vonandi á niðurleið hér á landi en næstu dagar munu skera úr um það, að mati Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Uppistaðan í faraldrinum eru enn sömu þrír stofnar veirunnar og áður en sá fjórði hefur komið inn á landamærunum.

Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna að fróðlegt yrði að sjá hvort meira yrði úr fjórða stofninum eða hvort það tækist að ná utan um hann.

Alls greindust 14 með veiruna innanlands í gær en hlutfall smitaðra úr einkennasýnatöku er komið niður í 0,6%. 

Þórólfur sagði jákvætt hversu mörg sýni hafi verið tekin síðustu tvo daga en þau voru rúmlega 1.300 í gær. Það sé merki um að fólk mæti í sýnatöku við minnstu einkenni. 

Hann sagði faraldurinn í línulegum vexti en benti á að það gæti brugðið til beggja vona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert