Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna

Verðlaunahafar Fjöruverðlaunanna sem afhent voru í janúar 2020. Frá vinstri …
Verðlaunahafar Fjöruverðlaunanna sem afhent voru í janúar 2020. Frá vinstri í fremri röð eru Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir, Bergrún Íris Sævarsdóttir og Bergþóra Snæbjörnsdóttir. í aftari röð eru Brynhildur Heiðu- og Ómarsdóttir, formaður Félags um Fjöruverðlaun, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Tilkynnt hefur verið hvaða níu bækur eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi í ár. Dómnefndir tilnefndu bækur í þremur flokkum, en flokkarnir skiptast í fræðibækur og rit almenns eðlis, barna- og unglingabókmenntir og fagurbókmenntir. Athygli vekur að einn höfundur er tilnefndur í tveimur flokkum, en það er  Kristín Svava Tómasdóttir sem er tilnefnd bæði í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis og í flokki fagurbókmennta. 

„Fjöruverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna. Í ljósi COVID-19 faraldursins og samkomutakmarka var horfið frá hefðundinni tilnefningahátíð en vonast er til að hægt verði að afhenda verðlaunin, samkvæmt venju, við hátíðlega athöfn í snemma árs 2021,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.

Tilnefningar í flokkki fræðibóka og rita almenns eðlis

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis eru tilnefndar bækurnar:

  • Íslenskir matþörungar - ofurfæða úr fjörunni eftir Eydísi Mary Jónsdóttur, Hinrik Carl Ellertsson, Karl Petersson og Silju Dögg Gunnarsdóttur sem Sögur útgáfa gefur út
  • Konur sem kjósa: Aldarsaga eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur sem Sögufélag gefur út
  • Þættir úr sögu lyfjafræðinnar á Íslandi frá 1760 eftir Hilmu Gunnarsdóttur sem Iðunn gefur út


Dómnefnd skipuðu Hafdís Erla Hafsteinsdóttir sagnfræðingur, Sigrún Helga Lund tölfræðingur og Sóley Björk Guðmundsdóttir þjóðfræðingur og blaðamaður.

Í umsögn dómnefndar um Íslenskir matþörungar - ofurfæða úr fjörunni segir: „Íslenskir matþörungar, ofurfæða úr fjörunni, varpar ljósi á þann fjársjóð sem finnst við strendur Íslands. Bókin kynnir lesandann fyrir þeirri vannýttu matarkistu sem býr í fjörunni og kennir honum að þekkja matþörunga, safna þeim og matreiða. Efni bókarinnar er komið vel til skila, ekki bara með aðgengilegum texta heldur er hún einnig ríkulega skreytt fallegum myndum sem gera bæði uppskriftum og leiðbeiningum um tínslu góð skil. Bókin er góð og tímabær viðbót við þann bókaflokk sem fjallar um íslenska náttúru og nýtingu hennar og kynnir vannýtta auðlind einstaklega vel.“

Um Konur sem kjósa: Aldarsaga segir: „Konur sem kjósa er aldarsaga íslenskra kvenna sem fullgildra borgara. Í gegnum ellefu sneiðmyndir af íslensku samfélagi, afmarkaðar við eitt kosningaár á hverjum áratug frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt, fær lesandinn djúpa og marglaga innsýn í veröld íslenskra kvenna.  Höfundar skyggnast bak við mýtuna um að íslenskar konur séu fegurstar og sjálfstæðastar allra kvenna og taka til umfjöllunar hvernig lagalegt og félagslegt jafnrétti kynjanna þróaðist á Íslandi. Fjallað er um hvernig konur sigruðust á þeim hindrunum sem blöstu við, til dæmis baráttuna um launajafnrétti, lífeyri eða aðgengi að salernisaðstöðu á vinnustöðum. Í þessari mikilvægu bók um sögu íslenskra kvenna stígur fram margradda kór sem er vissulega ekki sammála um allt, en er þó samstíga í baráttunni fyrir iðkun borgararéttinda.“

Um Þættir úr sögu lyfjafræðinnar á Íslandi frá 1760 segir: „Þættir úr sögu lyfjafræðinnar á Íslandi frá 1760 er vandað yfirlitsrit íslenskrar lyfjasölu og lyfjafræði allt frá því að fyrsta apótekið var stofnað í Nesi. Einnig er innlendum félagsmálum lyfjafræðinga og menntun þeirra gerð góð skil. Bókin er listilega skrifuð þar sem vönduð sagnfræðileg heimildavinna um þróun greinarinnar er sett í bráðskemmtilegt samhengi við ríkjandi tíðaranda svo lesandinn líður í gegnum frásögnina eins og spennandi reyfara sem erfitt er að leggja frá sér. Þetta rit má ekkert áhugafólk um íslenska heilbrigðis- og samfélagssögu láta framhjá sér fara.“

Tilnefningar í flokki barna- og unglingabókmennta

Í flokki barna- og unglingabókmennta eru tilnefndar bækurnar:

  • Iðunn og afi pönk eftir Gerði Kristnýju sem Mál og menning gefur út
  • Sjáðu eftir Áslaugu Jónsdóttur sem Mál og menninga gefur út
  • Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur sem Vaka-Helgafell gefur út

Dómnefnd skipuðu: Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir lektor í íslensku, Guðrún Jóhannsdóttir bókmenntafræðingur og Hildur Ýr Ísberg íslensku- og bókmenntafræðingur.

Í umsögn dómnefndar um Iðunn og afi pönk segir: „Iðunn og afi pönk lýsir veröld ellefu ára stelpu í Mosfellsbæ. Atburðarásin hverfist um afa hennar, dularfullt reiðhjólshvarf og grunsamlegar stelpur í hverfinu. Ekki er allt sem sýnist, ekki pönkið heldur. Trú afa á frelsi og umburðalyndi fólks gagnvart sjálfu sér og öðrum, eflir Iðunni og á erindi við lesendur. Gerður Kristný skrifar af leikandi húmor, með skáldlegri hrynjandi og smitandi ást á tungumálinu.“

Um Sjáðu segir: „Í Sjáðu! eftir Áslaugu Jónsdóttur fylgja lesendur tveimur kátum krökkum um ævintýraveröld þar sem sumt er kunnuglegt en annað framandi. Leiðsögnin er í bundnu máli, leikandi og létt. Skemmtileg orð kallast á við fjörlegar og litríkar myndir sem gefa ímyndunaraflinu undir fótinn. Framvinda frásagnarinnar er mest í myndunum og þar má sjá fleira en nefnt er í vísunum. Hér er boðið upp í gefandi samveru og samtöl foreldra og ungra barna, skemmtun og mikilvæga málörvun. Sjáðu! er kærkomin harðspjaldabók fyrir yngstu börnin sem þurfa að venjast við vandaðar bækur frá fyrstu tíð. Allur frágangur er til fyrirmyndar og bókin hæfir vel litlum höndum.“

Um Vampírur, vesen og annað tilfallandi segir: „Vampírur, vesen og annað tilfallandi er fyrsta barnabók Rutar Guðnadóttur. Í sögunni er fjallað um þrjár vinkonur sem allar kljást við erfiðleika, hver á sínu sviði. Sagan er að mestu leyti raunsæ frásögn um líf þriggja stúlkna og vandamál þeirra í skóla og einkalífi en færir sig svo aðeins inn á svið fantasíunnar í lokin, í vel heppnaðri blöndu. Bókin er vel skrifuð og persónusköpun er frumleg og sannfærandi. Rut tekst að koma alls kyns málefnum unglinga nútímans inn í þessa vel fléttuðu og húmorísku frásögn. Spennandi nýliðaverk frá höfundi sem á eftir að láta að sér kveða.“

Tilnefningar í flokki fagurbókmennta

Í flokki fagurbókmennta eru tilnefndar bækurnar:

  • Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur sem JPV útgáfa gefur út
  • Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur sem Benedikt bókaútgáfa gefur út
  • Undir Yggdrasil eftir Vilborgu Davíðsdóttur sem Mál og menning gefur út

Dómnefnd skipuðu: Elín Björk Jóhannsdóttir bókmenntafræðingur, Jóna Guðbjörg Torfadóttir framhaldsskólakennari og Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur.

Í umsögn dómnefndar um Aprílsólarkulda segir: „Það er ekki heiglum hent að takast á við föðurmissi, ástina og geðhvörf þannig að lesandinn fylgist með spenntur og áhyggjufullur um leið og samúðin fyllir hjarta hans. Þetta geir Elísabet Jökulsdóttir afar vel í bók sinni Aprílsólarkulda. Þetta er sjálfsævisögulegt verk um glímu við fortíðina þar sem sambandsleysi, söknuður, bóhemalíf og óheftur sköpunarkraftur takast á og leiða til mikilla átaka innan sem utan líkamans. Hér er skáldskapur á ferð sem veitir innsýn í heim níunda áratugarins um leið og hann fjallar um leitina að sjálfsskilningi, ást og umhyggju.“

Um Hetjusögur segir: „Hetjusögur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur er ljóðabálkur sem geymir afar frumlega endurvinnslu á ritinu Íslenskar ljósmæður sem kom út á sjöunda áratugnum. Þær hundrað ljósmæður sem þar segir frá ganga í endurnýjun lífdaga í ljóðum Kristínar Svövu. Það er sem opnist gátt inn í horfinn tíma þaðan sem streyma lýsingar af hetjudáðum þessara ljósmæðra sem létu hvorki ófærð né veðurofsa hamla för sinni. Ennfremur er hin góða, fórnfúsa kona dregin mjög skýrum dráttum. Kristín Svava sækir í orðfæri fyrrnefndrar bókar og finnur því nýstárlegan búning. Þessi meðferð á efninu er vel heppnuð og skilar sér í margslungnum og mögnuðum texta.“

Um Undir Yggdrasil segir „Í Undir Yggdrasil leiðir Vilborg Davíðsdóttir lesandann heima á milli, frá Íslandi og austur um haf og frá miðaldaheiminum sem hún hefur áður tekist á við yfir í handanheima norrænu goðafræðinnar. Efnistökin eru nútímaleg og úrvinnslan á sagnaarfinum vönduð svo úr verður söguleg skáldsaga sem á erindi við nútímalesendur. Bókin gefur innsýn í líf bæði kvenna og annarra aukapersóna Íslendingasagnanna. Þorgerður Þorsteinsdóttir er heillandi aðalpersóna og eins og aðrar persónur bókarinnar bæði heildsteyp og mannleg. Bókin heldur lesandanum fram á síðustu blaðsíðu enda er frásögnin meistaralega fléttuð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert