„Tvö ár er langur tími“

Ungt fólk stendur oft á krossgötum að loknu framhaldsskólanámi.
Ungt fólk stendur oft á krossgötum að loknu framhaldsskólanámi. mbl.is/Golli

Strax eftir útskrift af starfsbrautum framhaldsskóla er um helmingur nemenda kominn í einhvera virkni. 75% eftir fjóra mánuði, 85% eftir eitt ár og 90% eftir tvö ár. Þetta kemur fram í niðurstöðum úttektar verkefnahóps sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, setti á laggirnar um úrbætur í menntun, atvinnu og tómstundum fyrir nemendur sem lokið hafa námi á starfsbrautum framhaldsskóla.

Lilja Alfreðsdóttir segir mikilvægt að auka tækifæri þessa hóps varðandi …
Lilja Alfreðsdóttir segir mikilvægt að auka tækifæri þessa hóps varðandi íþróttir og frístundir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja segir í samtali við mbl.is að auðvitað sé hægt að fagna því að 90% séu komin í virkni eftir tvö ár en hvað með þau 10% sem ekki eru komin í virkni? „Tvö ár er langur tími þegar þú ert um tvítugt. Það er hægt að gera betur,“ segir hún og bætir við að vitnisburður þjóða á 21. öldinni markist af því hvernig komið er fram við viðkvæmustu hópa samfélagsins. „Samfélög, sem eru komin á þann stað sem við erum á, eiga að geta tryggt, sérstaklega fyrir þennan hóp, að þetta sé í lagi,“ segir hún. 

Verkefnishópinn skipuðu fulltrúar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, sem jafnframt fór með formennsku í hópnum, félagsmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssamtökunum Þroskahjálp, Samtökum atvinnulífsins, aðstandendum og í byrjun árs 2019 bættust í hópinn tveir fulltrúar Átaks, félags fólks með þroskahömlun.

Tilefni stofnunar verkefnishópsins var ákall umræddra nemenda og aðstandenda þeirra til mennta- og menningarmálaráðherra um úrbætur í málaflokknum.

Skýrsla hópsins kláraðist í september 2020 og til að auka vægi tillagna hópsins ákvað ráðherra að gerð yrði úttekt á afdrifum nemenda sem höfðu útskrifast af starfsbrautum árin 2015-2019. Þetta er í fyrsta skipti sem jafn viðamikil úttekt er gerð á högum þessara nemenda.

Um er að ræða ungt fólk sem lokið hefur námi á fjögurra ára námsbraut fyrir fatlaða nemendur í framhaldsskólum. Námsbrautin kallast starfsbraut eða sérnámsbraut og felur í sér sérstaka þjónustu við nemendur með þroskahömlun og skyldar fatlanir. Námsbrautin er samfellt nám í fjögur ár sem hefur það að markmiði að búa nemendur undir nám, störf og þátttöku í samfélaginu. Nær allir nemendur sem hefja nám á starfsbraut koma beint úr grunnskóla og því eru nær allir sem ljúka brautinni um 20 ára aldur.

Starfsbrautir framhaldsskóla hafa m.a. það að markmiði að gefa nemendum færi á að þroska hæfni sína og getu til að takast á við daglegt líf á heimilinu, í vinnu, tómstundum og í frekara námi. 

Ár hvert eru um 450-500 nemendur á starfsbrautum í framhaldsskólum landsins en 24 af 30 framhaldsskólum bjóða upp á starfsbrautir. Þar af eru níu skólar á höfuðborgarsvæðinu. Miðað við tölur undanfarin þrjú ár útskrifast um 40-50 nemendur ár hvert á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni útskrifast um 25-40 ár hvert. Þannig hafa um 65-90 nemendur útskrifast af starfsbrautum á öllu landinu undanfarin þrjú ár.

Meðal þess sem er lagt til og búið er að samþykkja af hálfu menntamála- og félagsmálaráðuneyta er að ráðinn verði samhæfingaraðili upplýsinga um námsframboð og atvinnutækifæri. Um hálft starf er að ræða og mun viðkomandi halda utan um gagnaöflun, umsýslu og kynningu á því efni sem fyrir liggur hverju sinni.

Starfsmaðurinn verði einnig samhæfingaraðili fyrir framhaldsskóla og atvinnulífið til að koma á auknu samstarfi þessara aðila. Að upplýsingar verði teknar saman um náms- og atvinnutækifæri, íþróttir og tómstundir að lokinni starfsbraut og þær vistaðar á einum stað.

Lilja segir að þetta sé afar mikilvægt því það hafi komið fram bæði hjá foreldrum og unga fólkinu að þau vissu ekki af þeim úrræðum og möguleikum sem í boði eru. Með þessu verði bæði hægt að nýta betur þau úrræði sem þegar eru til og um leið að fjölga verkefnum og störfum. 

„Við vitum fyrir fram hvað þetta er stór hópur sem lýkur námi ár hvert en samt tekur það of langan tíma að þau komist í virkni. Ég myndi vilja að fyrirsjáanleikinn væri meiri. Við vitum hvað námið tekur langan tíma og mikilvægt að eitthvað bíði þeirra að námi loknu því óvissa er vond, ekki síst fyrir þennan hóp,“ segir Lilja.

Stefnt er að styrkja verkefnið „Ráðning með stuðningi“ sem Vinnumálastofnun hefur haft sem tilraunaverkefni frá árinu 2016. Verkefnið var sérstaklega miðað að markhópi þeim sem hér um ræðir. Áherslan í verkefninu er að fjölga starfstækifærum og auka fjölbreytni í úrræðum fyrir fatlað fólk.

Samtök atvinnulífsins hafa þegar brugðist við og í nóvember undirrituðu Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Laufey Gunnlaugsdóttir, deildarstjóri hjá Vinnumálastofnun, hvatningu til atvinnulífsins þar sem skorað er á fyrirtæki og stofnanir að veita fólki með skerta starfsgetu tækifæri til starfa. Á fundi SA 11. nóvember kom fram að mikilvægt væri að draga úr fordómum. Einstaklingar með skerta starfsgetu hefðu oft og tíðum mikið til málanna að leggja og mikla burði til að sinna störfum við hæfi. 

Gestir fundarins voru einstaklingar sem hafa fengið tækifæri til starfa í atvinnulífinu þrátt fyrir skerta starfsgetu, samstarfsfólk, foreldrar og stuðningsaðilar. Vinnumálastofnun kynnti einnig þá þjónustu sem er í boði innan stofnunarinnar og varðar málefnið. Um er að ræða faglegan og fjárhagslegan stuðning.

„Við höfum þegar nokkur dæmi um fyrirtæki sem eru að vinna mjög metnaðarfullt og flott starf þegar kemur að því að veita þessum hæfileikaríka hópi tækifæri í atvinnulífinu. Við sáum á fundinum fulltrúa fyrirtækis sem hefur til að mynda staðið vel að þessu í mörg ár sem er til einstakrar fyrirmyndar.  Atvinnulífið er fjölbreytt og þar eru alls konar verkefni. Við eigum að getum fundið eitthvað verðugt fyrir alla í atvinnulífinu,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA.

Samtök atvinnulífsins hafa þegar sent upplýsingar til aðildarfyrirtækja og annarra sem vilja kynna sér málið. Þar geta fyrirtæki kynnt sér leiðir sem í boði eru í gegnum Vinnumálastofnun en þangað má sækja faglegan stuðning auk þess sem fjármagn fylgir verkefnum.

Að sögn Lilju hefur staðkennsla ekki verið felld niður hjá starfsbrautum framhaldsskóla í kórónuveirufaraldrinum og áfram verði málefni þessa hóps forgangsatriði hjá menntamálaráðuneytinu. Styrkja þurfi samspil milli menntakerfisins og atvinnulífsins og hún fagnar því hvernig Samtök atvinnulífsins hafa tekið á þessu. 

„Við eigum að lyfta upp fyrirtækjum sem sýna samfélagslega ábyrgð og þetta er samfélagsleg ábyrgð. Eitt af stóru verkefnunum fram undan er þessi stóri hópur sem við erum að missa úr virkni og hvernig ætlum við að koma þeim aftur í virkni? Því þetta snertir ekki bara unga fólkið heldur einnig foreldra þess sem jafnvel detta út af vinnumarkaði ef börn þeirra eru ekki í virkni.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, koma bæði að verkefninu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ef allar opinberar stofnanir og fyrirtæki myndu ráða inn og hugsa vel um þennan hóp þá erum við í toppmálum. Þetta þarf ekki að vera flóknara en það. Þetta bætir allt í samfélaginu og þetta snýst um að taka ákvörðun og framkvæma. Eitthvað sem við erum ákveðin í að gera,“ segir Lilja og skorar á allar opinberar stofnanir að taka þátt með því að tryggja fjölbreytni á vinnustöðum hins opinbera. 

Eitt af þeim verkefnum sem nefnd eru í skýrslu hópsins er að fjölga námstilboðum á sviði framhaldsfræðslu og háskóla, þar sem færri komast að en vilja í þau námsframboð sem eru í boði. 

Í boði eru tveggja ára diplómanám við Háskóla Íslands þar sem 12-14 einstaklingar komast að annað hvert ár. Að sögn Lilju hefur verið rætt við skólann um að auka möguleika fólks hér ekki síst hvað varðar aðgengismál.

Ef nemandi er í hjólastól þá séu þeir áfangar sem viðkomandi stundar kenndir í stofum sem hann kemst auðveldlega að segir Lilja og spyr: Er ekki hægt að hugsa þetta út frá þessum nemendum og að þau upplifi ekki að þau séu afgangsstærð? Að þau þurfi ekki stöðugt að aðlaga sig öðum heldur aðlagi aðrir sig þeim. 

Við Myndlistarskóla Reykjavíkur hefur verið boðið upp á sérsniðið listnám fyrir fólk með þroskahömlun. Námið er nú í boði að nýju en boðið var upp á slíkt nám árin 2015-2017 og mæltist afar vel fyrir, eftirspurn var mikil og færri komust að en vildu. 

Ýmis námskeið eru hjá Fjölmennt, s.s. matreiðsla, listir, íþróttir og kór. Vegna mikillar eftirspurnar fær hver einstaklingur eitt námskeið á önn einu sinni í viku. Símenntunarmiðstöðvar landsins bjóða námskeið eftir aðstæðum og eftirspurn hverju sinni og eru þau úrræði því oft ekki fyrirsjáanleg og eru sett á með stuttum fyrirvara.

Skýrsluhöfundar leggja til að aðgengi fatlaðra að tómstunda- og íþróttatilboðum …
Skýrsluhöfundar leggja til að aðgengi fatlaðra að tómstunda- og íþróttatilboðum verði aukið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skýrsluhöfundar leggja til að aðgengi fatlaðra að tómstunda- og íþróttatilboðum verði aukið þannig að fleiri einstaklingar hafi greiðari aðgang að ástundun á sínu áhugasviði. Þegar horft er til frístunda eða frístundatilboða fyrir fatlað fólk þarf að gæta þess að þau séu sambærileg við önnur frístundatilboð og þeim einstaklingum sé veittur stuðningur sem þess þurfa með.

Vandi íþróttahreyfingarinnar hvað þetta varðar er mögulegur aukakostnaður sem fellur til vegna fylgdar eða sérstakrar umsjónar með fötluðu íþróttafólki sem æfir með ófötluðu íþróttafólki. Minni sveitarfélög eiga erfitt með að mæta þessari áskorun þar sem einstaklingar eru fáir og lítið framboð er af tómstundastarfi. 

Lagt er til að styrkja íþróttafélög til að greiða fyrir stöðu aðstoðarþjálfara þar sem ekki er hægt að koma til móts við börn með frávik nema með slíku úrræði. Að styrkja íþróttafélög við sérverkefni sem hafa að markmiði að efla þátttöku barna með frávik í íþróttastarfi félagsins t.d. að bjóða upp á nýjar greinar. Að styrkja íþróttafélög til kaupa á sérbúnaði – ef slíkur búnaður getur opnað aðgengi að íþróttastarfi.

Að sögn Lilju er mjög mikilvægt að auka tækifæri ungmenna í þessum hópi að frístundastarfi og ekki síst að þau geti stundað íþróttir og tekið þátt í frístundastarfi óháð efnahag eftir að 18 ára aldri er náð. „Íþróttastarf fatlaðs fólks hefur verið sérstaklega metnaðarfullt í gegnum árin og alið af sér margt afreksfólk. Ég er stolt af því starfi sem unnið hefur verið og við eigum að styðja við það!“

Frístundakort miðast við 18 ára aldur en að sögn Lilju mætti alveg ímynda sér að í einhverjum tilvikum væri hægt að lengja það fyrir þennan hóp. Þau hafi ekki öll ráð á frístundum en sennilega sá hópur sem þær skipta einna mestu máli fyrir. 

Lilja er ánægð með vinnu hópsins en þetta er í fyrsta skipti sem staðan er kortlögð með svo skipulögðum hætti. „Það er mikilvægt að greina hlutina eins og hér er gert. Það þurfa að vera skýr skilaboð frá okkur í ráðuneytinu hvaða tækifæri ungt fólk með þroskahamlanir og aðrar raskanir hefur að loknu námi. Atvinnulífið er farið af stað og það er frábært. Fyrirtæki njóta skattalegra hvata til að taka þátt og þannig á það að vera. Því það er alltaf meiri ábati af því að hafa ungt fólk í virkni en ekki. Það vilja allir taka þátt og gera gagn í stað þess að sitja og horfa á lífið fara fram hjá sér. Ég er mjög ánægð með þessa vinnu og hvernig við erum að gera þetta en það þarf að fylgja þessu mjög vel eftir. Ég held að fortíðin segi okkur og sýni að við eigum ekki að láta söguna endurtaka sig. Við viljum ekki sjá annað Arnarholt,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert