18 í sóttkví vegna kveðjuhófs hjá OR

Vegna smits hjá starfsmanni OR voru 18 sendir í sóttkví …
Vegna smits hjá starfsmanni OR voru 18 sendir í sóttkví en enginn smitaðist til viðbótar við þennan eina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hinn 6. nóvember kom upp kórónuveirusmit hjá starfsmanni Orkuveitu Reykjavíkur, vegna kveðjuhófs á vinnustað fyrir einn starfsmanna, og voru 18 starfsmenn sendir í sóttkví fyrir vikið.

Upplýsingafulltrúi OR segir að fyllstu varúðar hafi verið gætt frá upphafi faraldursins og að svo muni verða áfram. Veiran geti hins vegar lætt sér víða, sama hversu varlega er farið. 

„Það greindist starfsmaður hjá okkur í byrjun nóvember og án einkenna kemur viðkomandi með aðkeyptar veitingar til samstarfsmanna sinna, vegna þess að einn þeirra var að láta af störfum hjá Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi OR og Veitna, í samtali við mbl.is.

Hún segir að allir þeir starfsmenn sem geti unnið heima hafi unnið heima þegar tilmæli sóttvarnayfirvalda kváðu á um slíkt.

„Í góðu samstarfi við smitrakningateymi röktum við smitið aftur í tímann og til þess að gæta fyllstu varúðar voru 18 skikkaðir í sóttkví, en ekkert nýtt smit kom upp vegna þessa.

Við erum að sinna grunnþjónustu fyrir samfélagið og því förum við í einu og öllu eftir fyrirmælum sóttvarnayfirvalda, en veiran spyr auðvitað ekki að slíku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert