Lækkar sekt hæstaréttarlögmanns

Dómur héraðsdóms var óraskaður um annað en fjárhæð sektarinnar.
Dómur héraðsdóms var óraskaður um annað en fjárhæð sektarinnar. mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur staðfest skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir hæstaréttarlögmanninum Pétri Þór Sigurðssyni.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í máli Péturs í maí á síðasta ári. Var hann þá dæmdur til þess að greiða 37,7 milljónir króna í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu þess dóms, en sæta að öðrum kosti fangelsi í 360 daga.

Í dómi Landsréttar, sem kveðinn var upp í dag, segir að dómur héraðsdóms skuli standa óraskaður um annað en fjárhæð sektarinnar. Lækkaði Landsréttur sektina niður í 35,4 milljónir. 

Var við ákvörðun sektarinnar tekið tillit til lögbundins lágmarks hennar og álags sem Pétur hafði þegar greitt, að því er segir í dómi réttarins.

Pétur er eig­inmaður Jón­ínu Bjart­marz, fyrr­ver­andi þing­manns og ráðherra Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Meiriháttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum

Málið varðaði meirihátt­ar brot gegn skatta- og bók­halds­lög­um en Pétur var sakfelldur fyr­ir að hafa ít­rekað, sem stjórn­ar­maður einka­hluta­fé­lags­ins Lög­fræðistof­unnar ehf., ekki staðið skil á virðis­auka­skatts­skýrsl­um á ár­un­um 2009-2010 og ekki staðið rík­is­sjóði skil á virðis­auka­skatti upp á rúm­lega 18,6 millj­ón­ir króna.

Þá var hann einnig sak­felld­ur fyr­ir að hafa látið und­ir höfuð leggj­ast að færa lög­boðið bók­hald einka­hluta­fé­lags­ins rekstr­ar­ár­in 2009 og 2010.

Pétur lýsti því í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra að bókhaldið hefði verið í skötulíki og síðar, þegar hann gaf skýrslu hjá sérstökum saksóknara, að hann hefði trassað að halda það, að því er segir í dómi Landsréttar. Það sama hafi hann fullyrt fyrir héraðsdómi.

Ekki staðið skil á réttum tíma

Eftir fréttaflutning mbl.is af málinu á síðasta ári kom verjandi Péturs, Björg­vin Þor­steins­son, fram með athugasemdir þess efnis að rangt væri að Pétur hefði ekki staðið skil á virðisaukaskatti, heldur hafi hann ekki staðið skil á honum á réttum tíma.

Þannig hafi hann greitt skuld­ina upp ásamt vöxt­um fyr­ir árs­lok 2011, áður en ákæra hafi verið gef­in út. Það sama eigi við um virðis­auka­skatts­skýrsl­un­ar, þeim hafi verið skilað, en ekki á rétt­um tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert