Súðavíkurhlíð ófær vegna snjóflóðs

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Súðavíkurhlíð er ófær vegna snjóflóðs og Holtavörðuheiði er ófær samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar. Brattabrekka er einnig ófær og óvíst er um færð á heiðum á Vestfjörðum. Starfsmenn Vegagerðarinnar eru að kanna færð um allt land og ekki komnar nýjar upplýsingar inn á vef hennar.

Á korti á vef Vegagerðarinnar má sjá að leiðin um Þverárfjall er ófær sem og Ólafsfjarðarmúli og Víkurskarð. 

Að sögn lögreglunnar á Akureyri var Öxnadalsheiðin opnuð í gær en ekki liggur fyrir hvernig færðin er yfir heiðina á þessari stundu. 

Fjarðarheiði og vegurinn um Fagradal eru ófærir sem og Öxi.

Gul viðvörun er enn í gildi á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og á miðhálendinu. Þær falla úr gildi með morgninum. 

Norðanhríðarveður á Norðaustur- og Austurlandi, en lægir talsvert í dag og styttir upp að mestu. Einnig er spáð norðanstormi og öflugum vindhviðum undir Vatnajökli og í Mýrdal fram undir hádegi. Mjög varasamt ferðaveður á þeim slóðum.

Búist er við norðanstormi úti fyrir Norðaustur- og Austurlandi. Há ölduhæð og áhlaðandi getur valdið miklum ágangi sjávar við ströndina.
mbl.is