Þakplötur fuku á bíla í Mosfellsbæ

mbl.is/Eggert

Tilkynnt var til lögreglu um þakplötur að fjúka af húsi í Mosfellsbæ á sjöunda tímanum í gær. Að sögn lögreglu var mögulega um skemmdir að ræða á bifreiðum vegna foksins.  

Kona í annarlegu ástandi var handtekin og vistuð í fangageymslum lögreglunnar seint í gærkvöldi vegna eignarspjalla í Garðabæ.

Nokkur þjófnaðarmál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Um kvöldmatarleytið var tilkynnt um búðarhnupl í verslun á Seltjarnarnesi en þar reyndi maður að stela tveimur lambahryggjum. Ekki vildi betur til en að maðurinn, sem hafði sett kjötið undir úlpuna, missti það er hann yfirgaf verslunina.

Á áttunda tímanum var tilkynnt um þjófnað úr verslun í Austurbænum (hverfi 104). Í dagbók lögreglu segir að þrír einstaklingar hafi komið inn í verslunina. Tveir keyptu varning en einn fór úr versluninni með varning sem hann hafði ekki greitt fyrir. Maðurinn var með varninginn innan klæða og öryggishlið gaf hljóðmerki er hann fór út. Starfsmaður fór á eftir manninum og náði hluta varningsins en maðurinn komst undan með félögum sínum í bifreið sem beið fyrir utan. Málið er í rannsókn lögreglu.

Par var síðan handtekið við innbrot í fyrirtæki í Vesturbænum (hverfi 107) í nótt og eru þau vistuð í fangageymslum lögreglunnar fyrir rannsókn málsins.

Í nótt var bifreið stöðvuð eftir hraðamælingu á Reykjanesbraut en ökumaðurinn reyndist vera á 116 km hraða þar sem heimilt er að aka á 80 km hraða. 

Fjórir ökumenn voru síðan stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna og fleiri brot. Þrír þeirra voru undir áhrifum fíkniefna og sá fjórði áfengis. Einn var einnig að tala í símann við aksturinn og annar er án ökuréttinda. Sá hefur ítrekað verið stöðvaður fyrir sömu brot. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert