„Eitthvað rangt og ósanngjarnt í því“

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar
Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að varað hafi verið við því á sínum tíma að uppgreiðslugjöldin á lánum Íbúðalánasjóðs gætu verið ólögleg. 

Hann segir að hafa beri í huga að fólk sem var með uppgreiðslugjöld á sínum lánum hafi notið hagstæðari vaxtakjara en aðrir.

„En það breytir ekki hinu, að með gjörbreyttu vaxtaumhverfi hefur þetta fólk ekki notið sömu tækifæra til þess að endurfjármagna sín lán og lækka þar með greiðslubyrði sína jafnvel um tugir þúsunda eins og margir hafa sem betur fer getað gert á undanförnum misserum. Það er eitthvað rangt og ósanngjarnt í því, alveg óháð niðurstöðu þessa dóms sem ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér,“ sagði Óli Björn í samtali við mbl.is

Dómur féll í héraði í gær þar sem uppgreiðslugjald sem Íbúðalánasjóður lagði á lán sín á tilteknu tímabili voru dæmd ólögleg. Íbúðalánasjóði hafi þannig verið óheimilt að krefja lánþega um greiðslu uppgreiðslugjalda. Reikna má með að tugmilljarða króna hagsmunir séu undir. 

Samkvæmt svari frá fjármálaráðuneytinu er málið til skoðunar þar. Gert er ráð fyrir að ákvörðun um áfrýjun liggi fyrir í næstu viku. 

Aðspurður hvort efnahags- og viðskiptanefnd taki málið fyrir segir hann það líklegt. „Við þurfum örugglega að fara yfir þetta mál þegar þar að kemur. Vandi okkar er sá að við þurfum að klára ákveðin mál sem brenna og þarf að klára fyrir áramót. En auðvitað þarf nefndin að fara í gegnum þetta,“ sagði Óli Björn og bætti því við að einhver tími væri til stefnu í þeim efnum.

mbl.is