Mikil fjölgun heimafæðinga í Covid

Guðrún Hulda fæddi Rögnvald Óðinn heima árið 2013. Kristbjörg aðstoðaði …
Guðrún Hulda fæddi Rögnvald Óðinn heima árið 2013. Kristbjörg aðstoðaði þau heima. Ljósmynd/Aðsend

Heimafæðingar hafa ekki verið fleiri í allavega 50 ár. Þetta segir Kristbjörg Magnúsdóttir, sjálfstæð ljósmóðir sem sinnir heimafæðingum. Hún telur ástæðuna vera beintengda kórónuveirufaraldrinum.

„Fólk getur ekki hugsað sér að maki fái ekki að vera með við fæðingu. Margar konur hafa fundið öryggi í heimafæðingu fyrir sig og sína fjölskyldu,“ segir Kristbjörg.

Frá janúar til nóvember á þessu ári hafa 106 börn fæðst heima á Íslandi. Ekki hafa verið fleiri heimafæðingar í að minnsta kosti 50 ár (ekki fundust eldri gögn). 

Vonandi kemur sú 300. á árinu

Kristbjörg hefur starfað sem verktaki hjá ríkinu í 15 ár við að sinna heimafæðingum. „Á jóladag verða komin 15 ár frá minni fyrstu heimafæðingu og þær verða vonandi þrjú hundruð á árinu, ég er komin upp í 298,“ segir Kristbjörg. 

Hún bætir því við að hún hafi sinnt hátt í fjörutíu fæðingum þar sem óvænt er fætt heima frá árinu 2016. Það getur gerst þegar fæðingar verða mjög hratt. Hún segir það afar sjaldgæft hjá konum sem eru að fæða í fyrsta skipti.

Hver eru skilyrðin fyrir heimafæðingu?

„Landlæknir gefur út leiðbeiningar sem verið er að uppfæra en í grófum dráttum er það; heilbrigð kona, heilbrigt barn, bara eitt barn, með höfuðið niður, og konan sé gengin 37 til 42 vikur. Við höfum líka mikið sjálfsvald, ljósmæðurnar, hvaða konur við tökum og getum metið aðstæður.“

Eru allar heimafæðingar í vatni?

„Nei, hjá mér eru u.þ.b. 2/3 hlutar kvenna sem kjósa að fæða í vatni heima.“

Konur eigi rétt á að velja

Hvert er framboðið af þessari þjónustu annars staðar á landinu?

„Ég sinni stór-höfuðborgarsvæðinu, ég hef farið á Flúðir, Skagann og í Kjós.“ Hún segir framboð þjónustunnar einfaldlega ráðast af því hvort ljósmóðir á svæðinu taki að sér heimafæðingar. 

„Sem kona sem hefur sjálf fætt heima gat ég ekki hugsað mér að konur gætu ekki fætt heima vegna þess að það fengist ekki ljósmóðir,“ greinir Kristbjörg frá. Hún segir konur eiga rétt á að velja hvar og hvenær þær þiggi heilbrigðisþjónustu.

Ekki greitt sérstaklega fyrir heimafæðingu

Kostar sérstaklega að fæða barn heima?

„Nei, það er ekki greitt sérstaklega fyrir heimafæðingu. Hérna á Íslandi hefur í lögum verið að meðganga, fæðing og sængurlega er frí. Heimafæðingar falla undir sama hatt.“

mbl.is