Mikill viðbúnaður var á Esjunni

Mynd af facebook-síðu Landsbjargar af vettvangi í dag.
Mynd af facebook-síðu Landsbjargar af vettvangi í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Töluverður viðbúnaður var hjá viðbragðsaðilum vegna slyss sem tilkynnt var um á Esjunni í hádeginu í dag. 

Mikið lið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, björgunarsveitanna og lögreglunnar ásamt þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar voru á vettvangi þegar maður var hífður í þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag.

Tveir menn höfðu verið í fjallgöngu í Gunnlaugsskarði. Annar þeirri hrasaði og datt í töluverðum bratta og svelli. Sem áður segir var mikill viðbúnaður viðbragðsaðila en að lokum var ákveðið að hífa manninn í þyrlu.

Mynd frá facebooksíðu Landsbjargar af vettvangi í dag. Viðbragðsaðilar frá …
Mynd frá facebooksíðu Landsbjargar af vettvangi í dag. Viðbragðsaðilar frá Kjalarnesi mættu á fjórhjólum. Að sögn upplýsingafulltrúa Landsbjargar voru aðstæður krefjandi. Ljósmynd/Landsbjörg

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, voru aðstæður góðar og gengu aðgerðir vel. Þá var veðrið hagstætt til þyrlubjörgunar. 

Maðurinn var fluttur á Landspítalann í Fossvogi. Hinn maðurinn varð eftir í fjallinu og kom sér niður fjallið til björgunarsveitarfólks.

Davíð Már segir mikið af fólki stunda útivist um þessar mundir. „Slysin gera ekki boð á undan sér, við hvetjum þá sem ætla að stunda vetrarútivist við krefjandi aðstæður til að hafa öryggismál á hreinu og vera vel útbúnir,“ segir hann og bætir því við að mennirnir hafi báðir verið vel útbúnir til útivistar.

mbl.is