Vegglist í þágu mannréttinda

Ljósmynd Amnesty

Íslandsdeild Amnesty International fékk listamanninn Stefán Óla Baldursson til liðs við sig til að vekja athygli á árlegri mannréttindaherferð samtakanna, Þitt nafn bjargar lífi, árið 2020 með því að skapa vegglistaverk í Reykjavík. Markmið herferðarinnar er að safna undirskriftum fyrir tíu áríðandi mál einstaklinga til að þrýsta á viðkomandi stjórnvöld um að virða mannréttindi að því er segir í fréttatilkynningu. 

„Vegglistaverkið er unnið út frá einu af þessum tíu málum og er það í raunsæisanda en með túlkun listamannsins á aðstæðum. Verkið er af Nassimu al-Sada frá Sádi-Arabíu sem situr í fangelsi fyrir að berjast fyrir frelsi kvenna þar í landi. Hún var sjálf svipt frelsi fyrir að krefjast þess að konur fengju rétt til að aka bíl og sinna daglegum erindum án leyfis karlkyns forráðamanns. Nassima sætti illri meðferð í varðhaldi og var sett í algjöra einangrun frá öðrum föngum í heilt ár,“ segir í tilkynningu.

Listaverkið er málað á húsvegg Kaffihúss Vesturbæjar á Melhaga og því sýnilegt gestum og gangandi sem þar eiga leið um.   

„Samtakamátturinn í Þitt nafn bjargar lífi á síðasta ári bjargaði lífi ungs drengs, Magai Matip Ngong frá Suður-Súdan. Hann var aðeins 15 ára þegar hann var dæmdur til dauða. Um heim allan skrifuðu 765.000 einstaklingar undir mál hans og stjórnvöld brugðust við með því að fella dauðadóminn úr gildi í júlí 2020,“ segir ennfremur í fréttatilkynningu.

Sjá nánar hér

Vegglistaverkið er á Melhaga.
Vegglistaverkið er á Melhaga. Ljósmynd Amnesty
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert