Tilslakanir en áfram 10 manna fjöldatakmörk

Svandís Svavarsdóttir við Ráðherrabústaðinn í dag.
Svandís Svavarsdóttir við Ráðherrabústaðinn í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir tilkynnti um nýjar sóttvarnareglur sem munu taka gildi á fimmtudaginn. Áfram verða 10 manna fjöldatakmörk og tveggja metra reglan verður í gildi. Hins vegar verða tilslakanir þegar kemur að fjölda gesta á veitingastöðum, bíóhúsum og leikhúsum, auk þess sem sundstaðir verða opnaðir á ný og íþróttir heimilaðar að einhverju leyti. Hins vegar verða líkamsræktastöðvar áfram lokaðar.

Nýju reglurnar gilda fram til 12. janúar.

Þá verður miðað við 5 manns í verslunum á hverja 10 fermetra, að hámarki 100 manns í hverri verslun.

Tillögurnar í heild sinni.

Svandís ræddi við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í ráðherrabústaðnum og fór þá yfir næstu skref.

Sagði hún að áfram yrði miðað við 10 manna fjöldatakmörkun. Hins vegar gætu veitingastaðir tekið á móti 15 gestum í senn og verið með opið til klukkan 22, en þó ekki fengið inn nýja gesti eftir klukkan 21.

Þá verður aftur heimilt að opna sund- og baðstaði, en með 50% af leyfilegum hámarksfjölda. 

Miðað verður við 50 manns í jarðaförum, en annars mun gilda 10 manna hámark í kirkjum.

Íþróttaæfingar, með eða án snertingar, verða heimilaðar fyrir fullorðna í íþróttum innan ÍSÍ í efstu deild. Æfingar afreksfólks verða jafnframt heimilaðar, en æfingar sem krefjast snertingar innan bardagaíþrótta eru þó ekki heimilar.

Bíóhús og leikhús mega opna að nýju, en miðað verður við hámark 30 manns á sviði og 50 manns í áhorfendarými, eða 100 börn. Þó verða sæti að vera merkt og ekkert hlé á sýningum.

Áfram verða líkamsræktastöðvar lokaðar. Svandís var spurð út í þá ákvörðun og sagði að það væri vegna ítrekaðra ráðlegginga sóttvarnalæknis um að meiri hætta væri á smitum í þeirri starfsemi en annarri.

Spurð af hverju enn væri miðað við 10 manna fjöldatakmarkanir meðan 15 manns gætu komið á veitingastaði sagði hún að 10 manna takmörkunin snúist um það sem fólk gerði sjálft í sínu persónulega rými, „samkomur sem við erum sjálf að skipuleggja.“ Sagði hún að áfram yrði mælst til þess að það væru bara 10 manns í þessari „búbblu“ og að fólk myndi velja vel hverjir þessir 10 væru sem það fólk væri að umgangast mest.

Ítrekaði Svandís að með aukinni dreifingu og ef smit kæmi upp væri hætta á að faraldurinn tæki sig upp aftur.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Katrín Jakobsdóttir við …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Katrín Jakobsdóttir við Ráðherrabústaðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert