Áskoranir og viðbrögð vegna óveðursins

Frá óveðrinu fyrir ári síðan.
Frá óveðrinu fyrir ári síðan. mbl.is/Þorgeir

Áskoranir í uppbyggingu flutningskerfis raforku og viðbrögð of eftirmála óveðursins sem skall á landinu í desember í fyrra voru meðal þess sem rætt var á rafrænum fundi Landsnets um framtíð flutningskerfisins. Fundinn má nálgast á www.landsnet.is/leggjumlinurnar

„Í einu myndbandinu er farið yfir þá viðbragðsáætlun sem fer í gang hjá okkur þegar vitað er að óveður mun skella á. Þar má sjá áhrifin af því þegar kerfi af þessari stærðargráðu verða fyrir verulegum áföllum. Við hjá Landsneti stóðum frammi fyrir miklum áskorunum í kjölfar óveðursins sem skall á fyrir ári síðan og ljóst er að hraða þarf uppbyggingu, byggja upp sterkara kerfi og tryggja rafmagn á öllu landinu þegar veður sem þetta skellur á,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Í hringborðsumræðum um orkuöryggi og græna framtíð kom fram sú skoðun Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, að óveðrið sýndi að veruleg þörf er á að hraða uppbyggingu orkukerfisins. Nú liggi fyrir hundruð tillagna um brýn verkefni sem ráðast þarf í.

Þá skipti þessi uppbygging einnig máli hvað varðar markmið um kolefnishlutleysi og græna framtíð í orkumálum. Með forsætisráðherra í umræðunum eru Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og Sigrún Jakobsdóttir, stjórnarformaður Landsnets.

Í hinni hringborðsumræðunni er fjallað um uppbyggingu flutningskerfis og innviðauppbyggingu. Þar áréttar Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, að ólíðandi sé að brýnar framkvæmdir sem lúti að almannahagsmunum skuli stranda á skipulagsmálum. Ástandið sem skapaðist í óveðrinu sýni að átak sé nauðsynlegt. Ásamt Aldísi í umræðunni eru þátttakendur þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Þar ræðir ráðherra um að stór og mikilvæg verkefni hafi tekið of langan tíma í uppbyggingu, verið sé að skýra verkferla og flýta sumum þeirra og augljóst sé að fjárfestingarþörfin er mikil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert