Þarf að greiða 15 milljónir í bætur vegna myglu

Mynd úr safni. Dómurinn taldi að seljandinn hefði átt að …
Mynd úr safni. Dómurinn taldi að seljandinn hefði átt að vita af rakaskemmdum í húsinu og því bar hann ábyrgð á tjóninu. Ljósmynd/Hús & heilsa

Héraðsdómur Suðurlands hefur gert karlmanni að greiða rúmlega 15 milljónir í bætur til hjóna sem keyptu af honum fasteign í Bláskógabyggð árið 2017. Er ástæðan sú að mikil mygla fannst í húsnæðinu þegar fólkið ætlaði að fara í endurbætur, en í dóminum kemur fram að seljandanum hafi átt að vera ljóst að óeðlilega mikill raki væri í hluta hússins. Hafi hann þannig ekki getað verið grandsamur um þá galla sem voru til staðar, en ekkert var getið um þá í söluyfirliti eða við sölu húsnæðisins.

Segir í dóminum að þar sem seljandinn hafi ekki getað talist grandlaus um gallana þá hafi honum borið að láta stefnendur vita um tilvist þeirra, eða að minnsta kosti að ástæða væri til að skoða mögulegan raka í gólfi.

Ekki getið um að neitt væri að

Í söluyfirliti eignarinnar var ekki getið um að neitt væri að henni. Með söluyfirlitinu fylgdi einnig yfirlýsing seljanda um ástand fasteignarinnar og kom þar heldur ekkert fram um galla, heldur þvert á móti var þar tekið fram að ekki sé vitað um neinn sveppagróður, myglu, raka eða annað sem betur megi fara. Þá er tekið fram að dren hafi verið endurnýjað árið 2013. Kaupendurnir sögðu hins vegar að við skoðun hafi þau verið upplýst um að smávægilegur leki hafi verið frá eldhúsvaski, en að gert hafi verið við það.

Í dóminum er lýsing kaupendanna rakin, en þar segir að þegar byrjað var að rífa upp gólfdúk í eldhúsi hafi komið í ljós að „gríðarleg mygla“ hafi verið þar undir. Þá lýstu hjónin því að fjölskyldan hafi verið óeðlilega oft veik eftir að þau fluttu í húsið og þau hafi ákveðið að flytja úr því nokkrum vikum eftir að framkvæmdir hófust til að komast frá myglunni. Var sérstaklega vísað til þess að myglan hafi haft mikil áhrif á eiginkonuna.

Keyptu á 60, seldu á 50

Hafði fólkið keypt fasteignina á 60 milljónir, en þau seldu hana loks aftur árið 2019 fyrir 50 milljónir, en í dóminum kemur fram að engar aðrar ástæður séu taldar skýra þessa verðrýrnun heldur en myglan.

Voru matsmenn fengnir til að meta mygluskemmdir, en í greinargerð þeirra segir að umtalsverð mygla sé í bæði gólfi og þaki hluta hússins. Er lélegu dreni kennt um, svo og fyllingarefni og skorti á einangrun undir gólfplötu sem valdi raka. Þá sé hár byggingarraki frá endurbótum þaks sem hafi orsakað mygluvandamál þar. Er niðurstaðan meðal annars sú að leggja þurfi nýtt dren, brjóta upp gólf og hreinsa um 25 sentímetra af fyllingu í sökkli og fylla upp í að nýju, einangra áfyllingu og steypa nýja gólfplötu. Þá þurfi að endurnýja einangrun í þaki og endurnýja plötuklæðningu á nokkrum veggjum.

Seljandi gat ekki talist grandlaus

Heildarkostnaður vegna þessa er metinn 14,1 milljón, en auk þess var farið fram á tæplega milljón í óbeinan kostnað eftir að þau urðu vör um mygluna.

Kaupendurnir fengu einnig Náttúrufræðistofnun Íslands til að gera tvær rannsóknir á sýnum sem tekin voru í húsinu. Í fyrri rannsókninni fannst mygla í sjö sýnum af tíu sem tekin voru á mismunandi stað. Í seinni rannsókninni fannst mygla í tréflögu sem hafði verið tekin úr þaki hússins.

Taldi dómurinn útséð að myglan uppfyllti skilyrði laga um galla í fasteign. Eins og fyrr segir var það niðurstaða dómsins að seljandinn gæti ekki talist grandlaus um gallana og var hann því dæmdur til að greiða 14,1 milljón auk bóta vegna óbeins kostnaðar upp á tæplega milljón. Til viðbótar þarf seljandinn að greiða hjónunum rúmlega 4 milljónir í málskostnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert