Framlag til RÚV eykst um 140 milljónir

Ríkisútvarpið er að miklu leyti fjármagnað með útvarpsgjaldi, sem lagt …
Ríkisútvarpið er að miklu leyti fjármagnað með útvarpsgjaldi, sem lagt er á alla einstaklinga og lögaðila. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir aðra umræðu fjárlaga fyrir árið 2021 eykst framlag til Ríkisútvarpsins um 140 milljónir í samræmi við tekjuáætlun af útvarpsgjaldi en tekjuáætlun var uppfærð á milli fyrstu og annarrar umræðu fjárlaga.

Upphaflega var gert ráð fyrir lægri fjárframlögum til Ríkisútvarpsins á næsta ári heldur en í ár upp á 310 milljónir. 140 milljónum var bætt við á milli fyrstu og annarrar umræðu fjárlaga. Framlög til Ríkisútvarpsins á næsta ári eru samt sem áður lægri heldur en í ár.

Fleiri greiða gjaldið en gert var ráð fyrir

Þegar mbl.is innti Harald Benediktsson, varaformann fjárlaganefndar, eftir skýringum á þessu svaraði hann að gjaldendur hafi verið fleiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. 

„Þetta er endurskoðun forsendna fyrir útvarpsgjaldinu sem er uppreiknað á hverju ári fyrir fjölda gjaldenda. Þetta er breyting í kjölfarið á því – það eru aðeins fleiri gjaldendur en gert var ráð fyrir í upphafi og því hærra innheimtuhlutfall,“ sagði hann í samtali við mbl.is. 

Útvarpsgjaldið er lagt á einstaklinga á aldrinum 16-70 ára, sem eru með tekjustofn yfir tekjumörkum og hins vegar innlenda lögaðila. Nokkrir þingmenn hafa þá lagt til að útvarpsgjaldið verði innheimt með beinum hætti með rafrænum greiðsluseðli í heimabanka líkt og tíðkast með bifreiðagjöld.

mbl.is