Algengur verðmunur á jólabókum 1.500-2.000 kr.

Neytendur ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum …
Neytendur ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytist ört í verslunum á þessum árstíma. Ljósmynd/Aðsend

Í yfir helmingi tilfella var 1.500 kr. munur á hæsta og lægsta verði á vinsælum jólabókum í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var 10. desember. Í 12 tilfellum af 53 var verðmunur á bókum yfir 2.000 kr. en mest fór munurinn upp í 3.000 kr. Penninn.is var oftast með hæsta verðið í könnuninni en Forlagið var næstoftast með hæsta verðið. Bónus var oftast með lægsta verðið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.

Var vísað út

Þar segir einnig, að Penninn-Eymundsson hafi neitað þátttöku í könnuninni og að fulltrúa verðlagseftirlits ASÍ hafi verið vísað út úr versluninni í Austurstræti.

„Fyrirtækið virðist ekki telja það þjóna hagsmunum sínum að neytendur séu upplýstir um verð í versluninni. Rétt er að vekja athygli á að verð var kannað á Penninn.is sem er netverslun Pennans Eymundssonar,“ segir í tilkynningunni. 

30-40% verðmunur í meirihluta tilfella

Þá segir, að í meirihluta tilfella, eða 35 af 53, hafi verið 30-40% verðmunur á bókum í könnuninni. Í 45 af 53 tilfellum hafi verðmunurinn verið yfir 1.000 kr. og í 29 tilfellum yfir 1.500 kr.

„Bækur eru vinsælar jólagjafir og getur slíkur verðmunur því verið fljótur að telja ef margar bækur eru keyptar. Penninn.is var oftast með hæsta verðið, í 26 tilfellum af 53, en Forlagið var með hæsta verðið í 23 tilfellum. Bónus var oftast með lægsta verðið á bókum, í 47 tilfellum af 53,“ segir ASÍ.

Í tveimur tilfellum var yfir 3.000 kr. verðmunur í könnuninni. Mestur munur á hæsta og lægsta verði í krónum talið var á bókinni um arkitektinn Guðjón Samúelsson húsameistara, 3.009 kr. eða 21%. Hæst var verðið á Penninn.is, 13.999 kr. en lægst í Forlaginu og á Heimkaup.is, 10.990 kr. Þá var 3.001 kr. eða 40% munur á hæsta og lægsta verði á bókinni Ellert eftir Ellert B. Schram og Björn Jón Bragason. Lægst var verðið í Bónus, 4.498 kr. en hæst á Penninn.is, 7.499 kr., segir verðlagseftirlitið. 

Nánar hér. 





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert