Aurskriður hafa fallið á Austfjörðum

Kort/Veðurstofa Íslands

Á Austfjörðum er áfram búist við talsverðri rigningu fram á miðvikudag með auknu afrennsli og tilheyrandi líkum á vatnavöxtum og skriðuföllum. Þar hafa fallið aurskriður samkvæmt Veðurstofu Íslands.

„Áfram er spáð talsverðri rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum. Jörðin er vatnsmettuð eftir rigningar og snjóbráð undanfarna sólarhringa. Áfram má búast við vatnavöxtum með talsverðu vatnsrennsli í ám og lækjum næstu daga. Aurskriður hafa fallið á Austfjörðum.“

Nokkuð hvöss norðaustanátt í dag en hægari vindur austanlands. Skýjað og yfirleitt þurrt á Suður- og Vesturlandi, dálítil rigning eða slydda um landið norðan- og austanvert en talsverð rigning á Austfjörðum fram á morgundaginn. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Það er ekki útlit fyrir miklar breytingar á miðvikudag og fimmtudag, þó heldur hægari vind og aðeins kaldara veður.

Veðurhorfur næstu daga

Norðaustanátt, víða 13-20 m/s en hægari á A-landi. Þurrt að kalla S- og V-lands, annars rigning eða slydda með köflum og talsverð rigning á Austfjörðum. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst. Heldur hægari vindur á morgun, skýjað veður og dálítil rigning eða slydda fyrir norðan og austan. Hiti 0 til 6 stig.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Norðaustan 8-15 m/s og rigning eða slydda með köflum, en dálítil snjókoma inn til landsins. Yfirleitt þurrt S- og V-lands. Hiti 0 til 6 stig.

Á föstudag:
Norðaustan hvassviðri eða stormur NV-til á landinu, annars hægari vindur. Slydda eða snjókoma á Vestfjörðum og N-landi, rigning A-lands en úrkomulítið sunnan heiða. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:
Norðaustanátt og slydda eða snjókoma N-lands, rigning á Austfjörðum og SA-landi en úrkomulítið SV-lands. Hiti 1 til 6 stig, en nálægt frostmarki fyrir norðan.

Á sunnudag og mánudag (vetrarsólstöður):
Norðanátt með snjókomu og síðar éljum N- og A-lands. Kólnandi veður.

Á föstudag herðir líklega aftur á norðaustanáttinni og þá með slyddu eða snjókomu norðantil á landinu, en rigningu austast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert