Stefnir í átök hjá Samfylkingunni?

Oddný Harðardóttir þingflokksformaður, Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður og Logi Einarsson …
Oddný Harðardóttir þingflokksformaður, Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, sækist eftir sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Það gerir einnig Jóhann Páll Jóhannsson fyrrverandi blaðamaður á Stundinni.

Kjarninn greindi fyrst frá framboði Kristrúnar og Fréttablaðið frá framboði Jóhanns.

Bæði hafa þau staðfest að þau sækist eftir sæti ofarlega á lista.

Aldís Mjöll Geirsdóttir, alþjóðaritari og málefnastýra Ungra Jafnaðarmanna hefur einnig opinberað framboð ofarlega á lista.

Bætt við klukkan 6:47 15. desember. 

Guðmundur Ingi Þorvaldsson hefur einnig ákveðið að gefa kost á sér í eitt af efstu sætunum á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi Alþingiskosningar.Samfylkingin fékk einn þingmann í Reykjavík suður og einn í Reykjavík norður kjörinn í síðustu Alþingiskosningum.

Fyrir eru Helga Vala Helgadóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson oddvitar og þingmenn Samfylkingarinnar sitt í hvoru Reykjavíkurkjördæminu. 

Helga Vala Helgadóttir laut í lægra haldi í varaformannsslagi Samfylkingarinnar á landsfundi í síðasta mánuði gegn Heiðu Björgu Hilmisdóttur. Ekki er vitað hvort að Heiða hyggist gefa kost á sér á lista til Alþingiskosninga. Fyrir er Heiða borgarfulltrúi.

Ný aðferð við val á lista

Samfylkingin mun styðjast við nýja aðferð við val á lista. Hún hefur ekki verið notuð áður hjá Samfylkingunni en Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur stuðst við svipaða aðferð. 

Sumir kalla hana hana „sænsku leiðina“ enda þekkt í Svíþjóð. Forval mun fara fram þar sem framkvæmd verður ráðgefandi skoðanakönnun meðal flokksmanna. Frambjóðendum verður síðan skipt upp í flokka og uppstillingarnefnd tekur að stilla upp innan hvers flokks.

Ungliðar vilja Ágúst út

Samkvæmt heimildum mbl.is vill hópur ungliða ekki að Ágúst Ólafur Ágústsson haldi oddvitasæti sínu í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Ragna Sigurðardóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, hefur áður lýst því yfir að Samfylkingin þurfi fleiri konur í oddvitasæti og að ummæli Ágústs Ólafs í garð Katrínar Jakobsdóttur sem kennd voru við kvenfyrirlitningu minni á kynferðislegt áreiti sem hann varð uppvísa af fyrr á kjörtímabilinu og að slíkt hljóti að hafa áhrif á stöðu hans fyrir næstu alþingiskosningar.

Þegar mál Ágústs Ólafs vegna kynferðislegs áreitis kom upp fór þáverandi stjórn Ungra Jafnaðarmanna opinberlega fram á afsögn Ágústs.

mbl.is