Tekjusamdrátturinn 136 milljarðar

Tekjur af erlendum ferðamönnum á 3. ársfjórðungi námu tæplega 33 milljörðum króna og voru um fimmtungur af því sem þær voru á sama tímabili í fyrra þegar þær voru tæpir 169 milljarðar.

Tekjur af farþegaflutningum með flugi drógust saman um 91%, úr 49 milljörðum í 4,5 milljarða, á meðan tekjur af neyslu og ferðalögum lækkuðu um 76%, úr tæpum 120 milljörðum í 28 milljarða á sama tímabili. Síðustu 12 mánuði hafa tekjur af erlendum ferðamönnum dregist saman um 59%, úr 485 milljörðum í 197 milljarða króna, borið saman við sama tímabil árið áður. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

93% fækkun gistinótta

Áætlaðar gistinætur á hótelum voru 24.000 í nóvember síðastliðnum, sem er 93% fækkun samanborið við nóvember í fyrra. Þar af er áætlað að gistinætur greiddar af Íslendingum hafi verið 17.000 (-61%) og erlendar gistinætur hafi verið 7.000 (-98%). Brottfararfarþegar sem fóru í gegnum Keflavíkurflugvöll voru rúmlega 5 þúsund í nóvember og fækkaði þeim um 97% frá sama mánuði í fyrra þegar þeir voru tæplega 177 þúsund. Heildarfjöldi flughreyfinga dróst einnig saman um 62%, úr 6.812 í 2.572, séu sömu mánuðir bornir saman.

Í þessari útgáfu skammtímahagvísa ferðaþjónustu eru birtar uppfærðar tölur um gistinætur. Auk þess eru birtar uppfærðar tölur um bílaleigubíla frá Samgöngustofu, umferðartölur frá Vegagerðinni og farþegatalningu Ferðamálastofu auk talna um farþega- og flughreyfingar frá ISAVIA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert