Þremur sleppt úr varðhaldi í DMT-máli

Lögreglan fer ekki fram á framhald á varðhaldi yfir þremur einstaklingum sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald til dagsins í dag í tengslum við umfangsmikið mál sem snýr að framleiðslu og sölu fíkniefna, meðal annars svokölluðu DMT ofskynjunarlyfi.

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að fimm hefðu verið handteknir í þágu rannsóknar málsins og þremenningarnir settir í varðhald í kjölfarið. Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir við mbl.is að ekki hafi verið farið fram á framlengingu varðhalds.

Á annan tug húsleita voru framkvæmdar á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins, en aðgerðirnar voru fyrr í mánuðinum sagðar liður í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi. Var meðal annars leitað aðstoðar pólskrar lögregluyfirvalda og Europol.

Margeir segir að ekki sé hægt að greina nánar frá stöðu rannsóknarinnar eða um magn fíkniefnanna, en hann staðfestir þó að um fleiri efni en umrætt DMT hafi verið að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert