Sjö þýðendur tilnefndir

Desember er tími bóka og tilnefninga til verðlauna.
Desember er tími bóka og tilnefninga til verðlauna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna vorur kynntar í Kiljunni á RÚV fyrir stundu. Að verðlaununum stendur Bandalag þýðenda og túlka í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda. Þau eru veitt fyrir bestu þýðingu á bókmenntaverki og er tilgangur þeirra að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar.


Sjö bækur eru tilnefndar að þessu sinni, en alls bárust 86 bækur frá 21 útgáfu. Verðlaunin verða veitt í febrúar á næsta ári. Í dómnefnd sitja Elísabet Gunnarsdóttir, Guðrún H. Tulinius og Þórður Helgason.

Tilnefndir þýðendur eru:

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson mbl.is/Golli


Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, fyrir þýðingu sína 43 smámunir eftir Katrin Ottarsdóttir sem  Dimma gefur út. Í umsögn dómenfndar segir: „Færeyski kvikmyndagerðarmaðurinn og rithöfundurinn Katrin Ottarsdóttir hefur lengi verið búsett í Danmörku en það er hvorki að sjá né heyra á þeim fjörutíu og þremur örsögum,43 smámunir, sem Aðalsteinn Ásberg Sigurðssonhefur íslenskað. Þarna eru hvorki dönsk huggulegheit né rökræður. Myndirnar sem hún dregur upp eru margar þokudrungnar og kaldranalegar en einstaklega skýrar og vafningalausar. Þessu kemur Aðalsteinn vandlega til skila með hnitmiðaðri og vandaðri þýðingu, enda veitir ekki af ef fara á eftir þeirri forskrift sem höfundurinn gaf.“

Guðrún Hannesdóttir
Guðrún Hannesdóttir mbl.is/Styrmir Kári

Guðrún Hannesdóttir, fyrir þýðingu sína Dyrnar eftir Mögdu Szabó sem Dimma gefur út. Í umsögn dómnefndar segir: „Magda Szabó fæddist í Austurrísk-ungverska keisaradæminu árið 1917 og lést í Ungverjalandi 2007. Eftir hana liggja margbreytilegar ritsmíðar en frægasta verk hennar er skáldsagan Dyrnarsem kom út 1987. Sagan er sögð byggja að einhverju leyti á lífi höfundarins en aðalpersónurnar eru annars vegar virtur rithöfundur sem á í langvinnum átökum við stjórnvöld, vel menntuð og félagslynd kona sem hefur mörg járn í eldinum og svo næstum ólæs ráðskona hennar sem engum hleypir inn til sín eða nærri sér. Samskipti þessara tveggja kvenna, oft heiftarleg, en síðar vinátta, er meginefni bókarinnar sem þýdd hefur verið á fjölda tungumála og hlotið alls kyns verðlaun. Þýðing Guðrúnar Hannesdótturer einstaklega lifandi og skilmerkileg svo hún virðist áreynslulaus og samgróin efninu.“

Heimir Pálsson
Heimir Pálsson mbl.is/Jim Smart


Heimir Pálsson, fyrir þýðingu sína Leiðin í Klukknaríki eftir Harry Martinson sem Ugla útgáfa gefur út. Í umsögn dómnefndar segir: „Það má heita furðulegt að bók Harry Martinson Leiðin til Klukknaríkiskuli ekki hafa verið þýdd fyrr á íslensku en þegar betur er að gáð sést að þetta er ekki árennilegt eða auðvelt verkefni. Þessi bók sænska Nóbelsverðlaunahafans kom út 1948 og fjallar um flakkaralíf á fyrri hluta 20. aldar, líf mannsins í náttúrunni, eftirsókn eftir frelsi og hverju verði það er keypt. Textinn er óhemjumargbreytilegur og oft á tíðum ljóðrænn en þýðandinn Heimir Pálsson slær hvergi af heldur siglir í gegn, þótt það hafi sannarlega ekki verið átakalaus sigling.“

Magnús Sigurðsson
Magnús Sigurðsson mbl.is/Hari


Magnús Sigurðsson, fyrir þýðingu sína Berhöfða líf eftir Emily Dickinson sem Dimma gefur út. Í umsögn dómnefndar segir: „Bandaríska skáldkonan Emily Dickinson hefur lengi verið mönnum ráðgáta og kveðskapur hennar vakið margar spurningar. Á seinni áratugum hefur framlag hennar til ljóðlistarinnar verið endurmetið og nú er hún talin meðal áhrifamestu ljóðskálda á ensku á síðari hluta 19. aldar. Nokkur stök ljóð hennar hafa áður birst í íslenskri þýðingu en það ljóðaúrval, Berhöfða líf, semMagnús Sigurðssonsendir nú frá sér markar tímamót. Einnig skrifar hann vandaðan inngang sem byggður er á doktorsritgerð hans um viðtökusögu skáldsins.“

Sigrún Eldjárn
Sigrún Eldjárn mbl.is/Kristinn Magnússon


Sigrún Eldjárn, fyrir þýðingu sína Öll með tölu eftir Kristin Roskifte sem Vaka-Helgafell gefur út. Í umsögn dómnefndar segir: „Sigrún Eldjárnþýðir bókinaÖll með tölueftir Kristin Roskifte, norskan mynd- og rithöfund. Bókin hlaut Barna-og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2019. Þýðing Sigrúnar ýtir undir alla helstu kosti bókarinnar sem er að auka málkennd, orðaforða, forvitni og áhuga ungra lesenda á öðru fólki og umhverfi sínu. Fólkið á sér allt einhver leyndarmál eða vandamál og hægt að geta sér til um líðan þess á svipbrigðum og ef til vill giska á hvað fólkið er að hugsa. Tungumálið höfðar til ungra lesenda, er létt og lipurt og gefur færi á að finna fleiri orð til að lýsa því sem barnið sér.“

Þórarinn Eldjárn
Þórarinn Eldjárn mbl.is/Eggert Jóhannesson


Þórarinn Eldjárn, fyrir þýðingu sína Hamlet eftir William Shakespeare sem Vaka-Helgafell gefur út. Í umsögn dómnefndar segir: „Margir hafa spurt sig hvort nokkra brýn nauðsyn beri að þýða öndvegisverk bókmenntanna oftar en einu sinni á tungu vora. Benda þeir þá gjarna á eldri þýðingu sem unnið hefur sér sess. Ný afar góð þýðingÞórarins Eldjárn sýnir svart á hvítu að Hamletbýður einmitt upp á nýja og spennandi möguleika sem hentar nýjum lesendum (áhorfendum) ákaflega vel.“

Þórdís Gísladóttir
Þórdís Gísladóttir mbl.is/Kristinn Magnússon


Þórdís Gísladóttir, fyrir þýðingu sína Álabókin eftir Patrik Svensson sem Benedikt útgáfa gefur út. Í umsögn dómefndar segir: „Ekki sýnist rit um ála vera fýsilegur kostur fyrir lesendur. Annað sanna rÁlabókin eftir sænska skáldið Patrik Svenson sem hefur farið sigurför víða. Álabókin er ekki eingöngu um ála heldur örlög alls lífs. Mjög sterk, á stundum tregafull tilfinning fyrir lífi, eyðingu og dauða einkennir verkið. Allt kemst það til skila í frábærri þýðingu Þordísar Gísladóttur.“

mbl.is