Hróp og frammíköll í þinginu

Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. mbl.is/Hari

Mikill hiti var í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingkonu Samfylkingar, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, var sérlega heitt í hamsi en illa gekk að fá þær til að halda sig innan ræðutíma. Þá hrópaði Rósa og reyndi ítrekuð frammíköll meðan Áslaug gerði tilraun til að svara fyrirspurn hennar. 

Fyrirspurn Rósu sneri að dómi Mannréttindadómstóls Evrópu, en fyrr í mánuðinum staðfesti yfirréttur dómstólsins niðurstöðu í Landsréttarmálinu. Var niðurstaðan á þá leið að íslenska ríkið hefði gerst brotlegt við skipun dómara í réttinn.

Hægt að læra af dómnum

Spurði Rósa dómsmálaráðherra hvers vegna ekki hefði verið brugðist við dómnum. Spurði hún Áslaugu jafnframt hvort hún ætlaði að halda áfram „að verja vonlausan málstað fyrrverandi ráðherra“.

Svaraði ráðherra fyrirspurninni þannig að niðurstaðan gengi ekki framar niðurstöðum íslenskra dómstóla. Þó væri ýmislegt hægt að læra af dómnum til að koma í veg fyrir sambærileg mál síðar. Síðar yrðu dómarar ekki samþykktir á einu bretti líkt og við skipan dómara í Landsrétt. 

„Svarið hreinlega vonbrigði“

Aftur steig Rósa í pontu og lýsti yfir miklum vonbrigðum með svar ráðherrans. „Þetta eru hreinlega vonbrigði, svarið er hreinlega vonbrigði. Það er grafalvarlegt ef dómsmálaráðherra hunsar niðurstöðu Mannréttindadómstólsins,“ sagði Rósa og bætti við að lítið hafi verið gert til að bregðast við dómnum. Undir lok ræðunnar sló forseti Alþingis í bjölluna og reyndi að stöðva þingkonuna, sem var komin um mínútu fram yfir uppgefinn ræðutíma. 

Áslaug svaraði fyrirspurninni og óskaði m.a. eftir lausnum frá Rósu. Kvaðst hún lítið botna í málflutningi þingkonunnar. Meðan á ræðunni stóð reyndi Rósa ítrekað að trufla með frammíköllum. Á endanum batt Steingrímur enda á ræðu Áslaugar sem sömuleiðis fór langt fram yfir ræðutíma. 

Áslaug Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is