Óttaðist að þetta væri hans síðasta

Guðni Sigmundsson björgunarsveitarmaður.
Guðni Sigmundsson björgunarsveitarmaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitarmenn á Seyðisfirði áttu fótum sínum fjör að launa þegar aurskriða féll á hús sveitarinnar nú síðdegis. Hópur manna var í húsinu að ráða ráðum sínum, þeirra á meðal Guðni Sigmundsson björgunarsveitarmaður.

Guðni segir að hópurinn hafi fylgst vel með Búðarárfossi sem fellur í sjó rétt við hús björgunarsveitarinnar Ísólfs. „Við sáum að fossinn var orðinn mórauður og vissum að það myndi trúlega koma meira [af aur],“ segir Guðni í samtali við blaðamann en þeir eru báðir í félagsheimilinu Herðubreið sem nýtt er sem fjöldahjálparmiðstöð.

Fólk safnast saman í félagsheimilinu Herðubreið.
Fólk safnast saman í félagsheimilinu Herðubreið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir hafi því hlaupið út úr húsinu og skýlt sér bak við nærliggjandi hús, gamla ríkið. Skjólið var vel valið því aurskriðan fór báðum megin við húsið og hafði með sér nokkur hús í leiðinni.

Við sáum bara haugana þyrlast upp sitthvorumegin við okkur. Ég verð bara að játa það að ég hef aldrei á ævinni verið jafnhræddur,“ segir Guðni sem viðurkennir að hann hafi óttast að þetta yrði hans síðasta. Miðað við það vatn sem hafi komið niður metur hann það svo að þeir hafi verið í stórhættu. Þegar skriðan var gengin yfir óðu þeir aurinn og drulluna til að komast niður í ferjuhús.

Guðni segir að hann sé í áfalli vegna hamfaranna. „Bærinn er bara í rúst, því miður.“ Hann er þó ekki af baki dottinn og segir björgunarsveitarmenn munu verða á svæðinu þar til þeirra verki er lokið, en vinna er hafin við að rýma bæinn.

Seyðisfjörður er eitt drullusvað.
Seyðisfjörður er eitt drullusvað. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is