„Ég byrjaði bara að gráta“

Condula Schrand var stödd í Reykjavík þegar hún fékk tíðindin …
Condula Schrand var stödd í Reykjavík þegar hún fékk tíðindin í morgun og tók næsta flug til Egilsstaða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Condula Schrand frá Þýskalandi, eigandi hússins Breiðabliks sem færðist um 50 metra í aurskriðu á Seyðisfirði í nótt, var stödd í Reykjavík þegar hún fékk slæmu tíðindin.

„Ég fékk símtal í morgun frá vinkonu og hún sagði mér að húsið hefði farið af grunninum og ég byrjaði bara að gráta. Ég gat ekkert sagt og var í algjöru áfalli. Ég tók næsta flug til Egilsstaða,“ segir Shcrand í samtali við mbl.is en hún er komin til Seyðisfjarðar þar sem hún verður í sóttkví næstu daga.

Var að skipuleggja afmælisveislu

Hún var stödd heima hjá sér í Hamborg þegar hún heyrði fyrst af aurskriðunum í bænum. Þá var hún að skipuleggja afmælisveislu fyrir 85 ára móður sína. „Ég er húsasmíðameistari og það hefur verið mikið að gera þetta ár og ég hef unnið mikið síðustu vikur. Ég var orðin úrvinda og var að vonast til að fá nokkurra daga frí,“ segir hún en það varð aldeilis ekki raunin. Til að bæta gráu ofan á svart hefur árið verið henni erfitt því hún hefur misst fimm ættingja, meðal annars úr Covid-19.

Þegar Schrand heyrði af fyrstu aurskriðunni sem féll í bænum var hún að vona að kjallarahurðin á húsinu sínu hefði haldið en í gærkvöldi frétti hún að mikill aur hefði flætt inn í kjallarann. Þar var mikið af afgangsbyggingarefni sem er væntanlega ónýtt.

Húsið hennar Condulu Schrand, Breiðablik, er ónýtt eftir atburði næturinnar.
Húsið hennar Condulu Schrand, Breiðablik, er ónýtt eftir atburði næturinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kláruðu að gera upp húsið í fyrra

Núna vonast hún til að hægt verði að komast inn í húsið og bjarga einhverjum af gömlu húsgögnunum sem eru þar, listaverkum föður hennar, persónulegum eigum og hluta af eldhúsinu. Hún lauk því að gera upp húsið síðasta sumar og ætlaði að halda upp á sextugsafmælið sitt næsta sumar með öllum vinum sínum. „Þeir ætluðu allir að koma og sjá húsið mitt.“

Árið 1998 keypti vinur hennar hennar húsið og byrjaði að vinna í því. Hann hafði orðið ástfanginn af Íslandi og hvatti hana til að koma í heimsókn. Þau urðu svo ástfangin og eignuðust barn. Þau byrjuðu árið 2000 að endurbyggja efri hluta hússins sem var illa farinn. Eftir nokkurra ára hlé hófst vinnan aftur við húsið. „Nokkrum árum síðar fundum við út að undirstöðurnar voru að bresta og myndu ekki endast þannig að við lyftum húsinu með stöplum fyrir neðan og steyptum grunn. Hann er vonandi ennþá þar,“ greinir Schrand frá.

Frá Seyðisfirði í gær.
Frá Seyðisfirði í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gámar sendir frá Hamborg

Spurð út í tryggingamál segist hún ekki hafa hugmynd um stöðuna á þeim. „Ég á engan pening. Ég gerði þetta frá grunni sjálf. Ég lét senda þrjá gáma frá Hamborg til Seyðisfjarðar með byggingarefni,“ segir hún en tekur fram að hún hafi fengið mikla hjálp frá vinum. „Þetta eru 15 ár af ævi minni núna.“ Óvíst er með næstu skref en fyrrverandi maður hennar hefur boðist til aðstoða hana við að endurbyggja húsið.

Spurð nánar út í áfallið sem hún varð fyrir vegna hússins segir hún það kannski eiga eftir að brjótast enn betur fram síðar. Núna reynir hún að brosa í gegnum tárin. „Ég sendi nágranna mínum á bensínstöðinni þar sem húsið mitt stendur núna skilaboð um að hann væri á jörðinni minni og ég vildi fá borgaða leigu frá honum,“ segir hún og hlær. „Hann hefur ekki svarað mér en kannski ætti þetta að vera öfugt.“

Skriður hafa fallið úr Nautaklauf á íbúabyggð á Seyðisfirði. Í …
Skriður hafa fallið úr Nautaklauf á íbúabyggð á Seyðisfirði. Í nótt féllu þar tvær skriður og færðu hús við Austurveg, sem kallast Breiðablik, um 50 metra af grunni sínum. Kort/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert