Húsið líklega ónýtt

Húsið sem skriðan sem féll í nótt hreif með sér …
Húsið sem skriðan sem féll í nótt hreif með sér sést hér fyrir miðri mynd. Húsið stóð við Austurveg og var eitt af þeim húsum sem fyrstu skriðurnar umlyktu. Ljósmynd/Þórður Bergsson

Ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands telur líklegt að húsið Breiðablik sem færðist um 50 metra úr stað í aurskriðu í nótt sé ónýtt. Ekki er hægt að útiloka að fleiri skriður falli á svæðinu.

Að minnsta kosti tvær aurskriður höfðu fallið hjá húsinu áður en skriða varð til þess að það færðist úr stað í nótt. „Það var svo sem vitað að það myndu falla skriður á þessu svæði en það var ekki reiknað með það myndu skemmast hús. Það var samt ljóst að það gæti alveg gerst,“ segir Magni Hreinn Jónsson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Ekki útilokað að fleiri skriður falli

Farvegurinn fyrir ofan húsin sem eru á rýmingarsvæði var lagaður í gær og hefur það eflaust hjálpað eitthvað til við að beina skriðum á milli húsa en það dugði þó til í þessu tilfelli, að hans sögn.

Spurður hversu illa farið húsið er segist hann ekki hafa kynnt sér það. „En mér þykir líklegt að það sé ónýtt.“ Breiðablik er gamalt timburhús og aðspurður telur hann ekkert ólíklegt að steypt hús hefði staðið af sér aurskriðuna.

Hann segir hættustig og rýmingu ennþá í gildi á svæðinu. „Það féllu tvær skriður í nótt og það er ekki hægt að útiloka að það falli fleiri skriður.“

Styttir upp eftir hádegi á morgun

Spáð er minni úrkomu í dag en var í gærkvöldi og í nótt þegar úrkoman var mjög mikil. Það gæti bætt eitthvað í úrkomu seinnipartinn um tíma. Eftir hádegi á morgun styttir upp og er útlit fyrir að þá verði þurrt. „Það verður kærkominn þurrkur þá,“ segir Magni Hreinn og tekur fram að þó að það dragi úr úrkomu í dag verður ástandið enn viðkvæmt.

Snjóathugunarmenn frá Veðurstofunni eru á svæðinu og aðstoða þeir við að meta aðstæður. Ekki er búið að ákveða hvort það megi fara inn á svæðið í dag. Til greina kemur að fólk geti farið þangað til að huga að húsum sínum, segir hann.

Fólk á Eskifirði gæti varúðar

Hættustig er í gildi á Seyðisfirði en óvissustig er í gildi á öllu Austurlandi vegna skriðuhættu. Spurður hvort sérstök svæði þar séu í hættu, segir hann svo ekki vera en nefnir mikinn vatnselg á Eskifirði. Þar er fólk á ákveðnum svæðum beðið um að gæta varúðar en engar rýmingar eru í gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert