Íslendingar hiki ekki við að láta bólusetja sig

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú er það staðreynd að á Íslandi getum við hafið bólusetningu hér á landi um áramót. Við þurfum þó að vera viðbúin því að bóluefnið berist til landsins í einhverjum skömmtum og að bólusetningin eigi sér stað í skrefum á næsta ári,“ sagði Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra í ræðu sinn­i á þing­fundi í dag. Þar flutti hún munn­lega skýrslu um horf­ur um af­hend­ingu bólu­efn­is vegna Covid-19. 

„Evrópusambandið hefur gert samning við sex lyfjafyrirtæki sem hafa unnið að þróun bóluefnis. Af þessum sex eru tvö fyrirtæki komin lengst sem eru þau AstraZeneca og Pfizer. Það þýðir að þau hafa lokið þriðja fasa rannsókna og samningur er undirritaður við Ísland um afhendingu bólefnis og umfang samningsins,“ sagði Svandís. Búist er síðan við að samningur við Moderna verði undirritaður fyrir áramót.  

Ekkert bóluefni hefur enn fengið markaðsleyfi í Evrópu. Búist er við að markaðsleyfi Pfizer verði gefið út fyrir jól. Markaðsleyfi fyrir Moderna er að vænta fljótlega eftir áramót og fyrir AstraZeneca í síðasta lagi í febrúar.

Ísland fær bóluefni í sama hlutfalli og önnur Evrópulönd 

Svandís segir það tryggt að Ísland fái bóluefni í sama hlutfalli og önnur lönd í Evrópu en Íslendingar líkt og Norðmenn hafa samið við Svía sem annast milligöngu um afhendingu bóluefna til Íslands. 

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag koma 3.000 skammtar af bóluefni á viku á fyrsta ársfjórðungi 2020.  

„Samningar okkar við þessa fyrirtæki tryggja okkur bóluefni sem ætti að nægja til að bólusetja þann hluta þjóðarinnar sem er markhópur fyrir bólusetningar, það er að segja fólk fætt fyrir 2005.“ 

Þá liggur fyrir að minnst 70% af markhópnum þurfa að fá bólusetningu til að hjarðónæmi náist.   

Engar alvarlegar aukaverkanir hafa komið fram

Hingað til hafa engar alvarlegar aukaverkanir komið fram við notkun bóluefnisins. Algengustu einkennin eru væg inflúensu einkenni og eymsli á stungustað. Svandís bendir þó að ástæða sé til að gæta varúðar hjá þeim sem hafa alvarlegt ofnæmi. Bóluefnið hefur heldur ekki verið prófað á ófrískum konum. 

Svandís sagði það mikilvægt að Íslendingar hiki ekki við að láta bólusetja sig. „Þótt þróun bóluefnisins hafi gengið með methraða á heimsvísu, og sögulega, þá verður ekki farið yfir nein öryggisstig í þróun þess.“

Hún sagði ástæðu þess að ferlið hafi gengið svo hratt fyrir sig sé öll sú reynsla sem að liggur fyrir við fyrri þróun bóluefna auk ríflegs fjármagns og samstöðu þjóða. Hún bætti við að ef allt fer á besta veg má búast við því að þorri þjóðarinnar verði bólusettur á fyrstu tveimur ársfjórðungum næsta árs.  

Nýr kafli í baráttunni við Covid-19 

„Við erum að stíga inn í nýjan kafla í baráttunni við Covid-19. Það er full ástæða til að gleðjast yfir því og láta ekki slá okkur út af laginu þó dagarnir séu misgóðir í fréttum, vegna þess að fyrst og fremst er staðan sú að við erum komin inn í þennan nýjan kafla bóluefnis og við höfum með okkar samningum tryggt okkur nægilegt magn bóluefna fyrir Ísland,“ sagði Svandís.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert