Missti 113 ára hús og býr sig undir að fara burt

Framhús sést hér gjörónýtt. Það var reist árið 1907 og …
Framhús sést hér gjörónýtt. Það var reist árið 1907 og hefur því staðið á Seyðisfirði í 113 ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hús Dagnýjar Erlu Ómarsdóttur gjöreyðilagðist í aurskriðunni sem féll á Seyðisfirði í dag. Húsið hafði staðið frá árinu 1907. Dagný var í þann mund að halda af stað með fjölskyldu sinni til fjöldahjálparstöðvarinnar á Egilsstöðum þegar mbl.is heyrði í henni. Að hennar sögn er samhugur í bæjarbúum og Austurlendingum öllum.

„Ég er ekki alveg búin að ná utan um þetta held ég,“ sagði Dagný spurð að því hvernig henni liði. 

„Ég er aðallega bara fegin að enginn hafi verið í húsinu. Maðurinn minn var að sinna björgunarstörfum og dætur mínar í skóla og vinnu.“

Seyðfirðingar gefa sig fram við fjöldahjálparstöð í félagsheimilinu Herðubreið.
Seyðfirðingar gefa sig fram við fjöldahjálparstöð í félagsheimilinu Herðubreið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Myrkrið óhugnalegt

Spurð um hvert framhaldið verði nú segist Dagný verða að viðurkenna að hún viti það ekki. Fólk sé bara að reyna að ráða ráðum sínum í erfiðum aðstæðum - grenjandi rigning og nú er skollið á svartamyrkur.

„Það er kannski það sem er óhugnalegast. Við höfum verið að reyna að horfa upp í hlíðina en sjáum ekki neitt.“

Spurð um andrúmsloftið á Seyðisfirði og líðan bæjarbúa segir Dagný að samhugurinn sé mikill. 

„Það er ekki bara meðal bæjarbúa heldur bara fólks úr nærsveitum og úr öllum fjórðungnum. Maður finnur samtöðuna meðal fólks á Austurlandi núna. Ég hef verið að fá skilaboð úr öllum áttum; fólk héðan og þaðan, gömul bekkjarsystkini og annað.

Það standa allir þétt við hvern annan.“

113 ára gömul perla ónýt

Hús Dagnýjar heitir Framhús og var reist árið 1907. Það hefur því staðið á Seyðisfirði í ein 113 ár þar til í dag. Dagný og fjölskylda hennar festu kaup á húsinu árið 2013 og hafa gert það upp síðan.

„Það er alveg gríðarlega leiðinlegt að sjá á eftir þessu húsi. Það sem er mikilvægast þó að allir sluppu ómeiddir,“ segir Dagný áður en hún bætir við að líklega komi tilfinningalegi skellurinn síðar. Margir persónulegir munir fórust mögulega með Framhúsi.

„Dóttir mín var reyndar sorgmæddust yfir Andrés-blaði sem hún hafði nýlega fengið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert