Risavaxin skriða féll – annað hús farið

Önnur skriða féll á Seyðisfjörð og eyðilagði alla vega eitt …
Önnur skriða féll á Seyðisfjörð og eyðilagði alla vega eitt hús. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Risavaxin skriða féll rétt í þessu á Seyðisfirði. Þetta staðfestir blaðamaður mbl.is á staðnum. Skriðan féll um hálfan km austan við Nautaklauf þar sem fyrri skriður hafa fallið.

Eitt hús er farið í skriðunni að sögn blaðamanns og fleiri skemmd.

Svæðið sem skriðan féll á var órýmt og var fólk á svæðinu. Segir blaðamaður að fólk hafi komið þaðan hlaupandi. Skriðan var enn að falla fimm mínútum eftir að hennar varð fyrst vart og fylgja miklar drunur.

Rýmingarsvæðið stækkað

Al­manna­varn­ir hafa stækkað rým­ing­ar­svæðið í bæn­um. Búið er að boða björg­un­ar­sveit­ir á Aust­ur­landi á vett­vang, að sögn Jó­hanns K. Jó­hanns­sonar, upp­lýs­inga­full­trúa al­manna­varna.

Hann seg­ist ekki hafa upplýsingar um hvort fólk hafi verið inni í húsinu. 

Íbúar safnast saman í fjöldahjálparmiðstöðina.
Íbúar safnast saman í fjöldahjálparmiðstöðina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gefi sig fram við fjöldahjálparstöð

Mikilvægt er að allir rými húsin sín á svæði A á Seyðisfirði og gefi sig fram við fjöldahjálparstöðina í Herðubreið, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Viðbragðsaðilar á staðnum eru að meta stöðuna. Auk björgunarsveitarmanna frá Austurlandi eru lögreglumenn á leiðinni í bæinn frá Reykjavík.

Kemur til greina að rýma bæinn

Samkvæmt heimildum mbl.is kemur til greina að rýma bæinn, það er þó enn óstaðfest.

Guðmundur Jóhannesson, samskiptastjóri Símans, staðfestir við mbl.is að símstöð bæjarins hafi orðið rafmagnslaus eftir að skriðan féll. Hún keyri hins vegar á varaafli og sé með 90 klst. rafþol. Þá sé hægt að fylla á eldsneyti. Þrír farsímasendar eru jafnframt á svæðinu, en Guðmundur segir að einn þeirra hafi orðið rafmagnslaus og keyri á varaafli. Hann er aðeins með rafþol upp á 6 klst, en hinir tveir sendarnir eru taldir dekka bæinn vel.

Húsið sem skriðan féll á heitir Framhús. Óttast er að fleiri hús séu skemmd á svæðinu, en þar eru meðal annars bæjarskrifstofur og hús Tækniminjasafnsins.

mbl.is