Hætt að rigna en enn skriðuhætta

Tíu hús hið minnsta hafa skemmst í aurskriðum á Seyðisfirði.
Tíu hús hið minnsta hafa skemmst í aurskriðum á Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hætt er að rigna á Seyðisfirði og hefur vindur snúist í norðvestanátt. Enn er skriðuhætta á Austfjörðum „eitthvað áfram“ að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings.

Náttúruvársérfræðingar á Veðurstofunni funda nú um stöðu mála en þeir hafa í nótt farið yfir mælingar úr mælitækjum sínum og metið horfurnar, til að mynda hversu lengi má búast við að skriðuhættan vari.

Þórhallur Árnason, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Austurlandi.
Þórhallur Árnason, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Austurlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allur Seyðisfjörður og hluti Eskifjarðar, frá Lambeyrará að Ljósá, voru rýmdir í gær. Alls búa á sjöunda hundrað manns á Seyðisfirði. Sjúkrahúsið á Seyðisfirði var meðal þess sem rýmt var.

Þórhallur Árnason, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Austurlandi, segir að vel hafi gengið að rýma bæina. Flestir hafi fengið inni hjá ættingjum eða á hóteli og enginn þurft að gista í grunnskólanum á Egilsstöðum.

Þórhallur segist vona að ekki byrji aftur að rigna og skriðuhættan líði hjá sem fyrst. „Það eru allir búnir að fá sig fullsadda á þessu.“

Þórhallur segir að sérsveitarmenn séu komnir til Seyðisfjarðar og vakti bæinn ásamt lögreglumönnum og öðrum viðbragðsaðilum. Núna klukkan níu munu viðbragðsaðilar safnast saman til fundar og að svo búnu funda með almannavörnum og Veðurstofunni.

Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert