Önnur minni skriða féll í morgun

Svona er umhorfs á Seyðisfirði.
Svona er umhorfs á Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erfitt er að meta hvort hætta er á fleiri stórum skriðum á Seyðisfirði. Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum í samtali við mbl.is. Rögnvaldur er í stjórnstöð almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík en hann tók þátt í fundi almannavarna, svæðisstjórnar og Veðurstofunnar í morgun.

Tvær skriður féllu í gær og hrifu með sér hús. Um klukkan sjö í morgun féll svo önnur skriða innan við Búðará en tjónið af hennar völdum er ekki talið mikið.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mannslífum ekki stefnt í hættu fyrir verðmætabjörgun

„Það sem við erum að gera er að meta hættu á annarri skriðu. Úrkoman hefur verið miklu meiri en gengur og gerist og jarðvegurinn er mjög blautur,“ segir hann og bætir við að erfiðara sé að sjá fyrir aurskriður en snjóflóð. „Í tilviki snjóflóða geturðu séð snjóinn og metið hvort hann er stöðugur. Þarna [í tilviki aurskriða] sjást þær oft ekki fyrr en þær eru farnar af stað.“

Sérfræðingar frá Veðurstofunni eru á svæðinu auk lögreglumanna og sérsveitarmanna og notast meðal annars við dróna til að meta ástand jarðlaga. Rögnvaldur segir aðspurður að sérsveitarmenn hafi verið sendir á vettvang vegna þess að þörf var á fleiri lögreglumönnum og að hægt sé að senda þá út með engum fyrirvara, auk þess sem þeir búi yfir dróna. 

Aðspurður segir Rögnvaldur að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvernig staðið verður að verðmætabjörgun í dag. „Það eru örugglega einhver verðmæti sem liggja undir skemmdum í þeim húsum sem hafa orðið fyrir tjóni og við þurfum að skoða hvað er hægt að gera,“ segir hann. Ekki megi þó hætta mannslífum til að bjarga veraldlegum verðmætum.

Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert