Umsóknum um vernd hefur fækkað

Útlendingastofnun. Færri umsóknir.
Útlendingastofnun. Færri umsóknir. mbl.is/Hari

Nýjar umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi voru 22 í nóvember. Það var mikil fækkun frá mánuðunum fjórum þar á undan.

Mjög fáar umsóknir um alþjóðlega vernd bárust í apríl og maí í vor. Það var rakið til mikillar fækkunar flugferða vegna kórónuveirufaraldursins og var mjög lítið flogið til og frá landinu á þessum tíma. Um leið og flug jókst fjölgaði umsóknum. Færri umsóknir nú í nóvember má mögulega rekja til sömu ástæðu, að sögn Útlendingastofnunar.

Í nóvember síðastliðnum bárust sex umsóknir frá Írökum, fimm frá Palestínumönnum og þrjár frá Sómölum en umsækjendur voru alls frá tíu þjóðlöndum.

Alls fengu 28 hér vernd í nóvember, það er vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi. Fjórum var synjað. Dublin-endursendingar voru fimm, 22 voru með vernd í öðru ríki og mál fjögurra til viðbótar fengu önnur lok, samkvæmt tölum Útlendingastofnunar.

Alls voru umsóknirnar orðnar 618 það sem af var árinu í nóvember. Flestar, eða 120, frá Palestínumönnum og næstflestar frá Venesúelum eða 104. Þriðji stærsti hópurinn á þessu ári eru Írakar með 97 umsóknir. Allt árið í fyrra bárust 867 umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert