Átelur stjórnvöld fyrir vanrækslu

Frá Seyðisfirði eftir skriðurnar.
Frá Seyðisfirði eftir skriðurnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jonathan Moto Bisagni, íbúi og athafnamaður á Seyðisfirði, er ósáttur við fullyrðingar forsætisráðherra um að hamfarirnar hafi verið óvenjulegar og ófyrirsjáanlegar, þegar stutt er síðan síðast féllu aurskriður á bæinn og hættumat Veðurstofu hafi legið fyrir um tveggja ára skeið, þar sem um þriðjungur bæjarbúa búi á skilgreindu hættusvæði.

Þrátt fyrir að miklar rigningar hafi gengið yfir svæðið, líkt og veðurspár hafi sagt fyrir um, 570 mm á nokkrum dögum, hafii byggðin samt ekki verið rýmd fyrir en aurskriðurnar tóku að falla.

„Það féllu aurskriður að húsinu mínu, þar sem við og krakkarnir mínir voru, og við þurftum að yfirgefa húsið á þriðjudag, en samt var bærinn ekki rýmdur þegar skriðuföllin komu á fimmtudag. Það þýðir ekki að segja að menn hafi ekki getað vitað þetta þegar svona úrkoma kemur á örfáum dögum,“ segir Jonathan í samtali við mbl.is. „Ég er ekki að kenna neinum einum um, en eitthvað er að yfirstjórninni.“

Jonathan finnur einnig að orðum forsætisráðherra um að Íslendingar stæðu saman á stundum sem þessum. „Mikið af fólkinu hérna eru ekki Íslendingar,“ minnir Jonathan á, en hann er Bandaríkjamaður af ítölskum og japönskum uppruna, sem fyrst kom til Seyðisfjarðar fyrir fimm árum og hefur haft fasta búsetu þar frá 2018.

Dönsk-ít­ölsk-japönsk-am­er­ísk og að mjög mörgu leyti ís­lensk fjöl­skylda á Seyðis­firði. …
Dönsk-ít­ölsk-japönsk-am­er­ísk og að mjög mörgu leyti ís­lensk fjöl­skylda á Seyðis­firði. Frá vinstri Ida Felt­en­dal, Jon­ath­an Moto Bisagni og Osk­ar Moto Felt­en­dal-Bisagni, son­ur þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Standa bara Íslendingar saman?

„Við fórum til dæmis út í Nettó með vinafólki okkar á Egilsstöðum, sem skutu yfir okkur skjólshúsi. Þar kom að viðskiptavinur og skipaði okkur á ensku að virða tveggja metra regluna hvert við annað. Við útskýrðum að við værum nýkomin frá Seyðisfirði eftir nokkrar hrakningar og byggjum saman, þess vegna héldum við hópinn. „Ég held ekki að séuð frá Seyðisfirði,“ var svarið.“

Hann segist ekki hafa tekið þetta ýkja nærri sér, en að þessi orð hafi komið á bæði konu sína og vini. Á eftir hafi fylgt fleiri, sem hafi borið vott um kynþáttafordóma. „Þetta er því miður reynsla margra okkar, sem eru hingað komin frá útlöndum,“ bætir hann við og fannst því lítið koma til orða Katrínar um samstöðu landsmanna, sem fjöldi manns hafi látið sér við líka á félagsmiðlum.

Enn síður í ljósi þess að hættan á ofanflóðum eigi engum að koma á óvart, en stjórnvöld hafi ljóslega látið undir höfuð leggjast að koma við vörnum eða áætlunum um viðbrögð.

Jonathan gagnrýnir einnig að æðstu ráðamenn séu núna fyrst að ráðgera að fara austur að kynna sér aðstæður, en forsætisráðherra er væntanlegur austur á þriðjudag. Þeir hefðu átt að koma um leið og hamfararirnar dundu yfir.

Rétt er þó að fram komi að það var að ráði almannavarna og heimamanna eystra, að ráðamenn hafa ekki komið fyrr, enda hefur verið við nóg að vera á hættusvæðunum þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert